Lokahóf frumkvöðlakeppninnar Gulleggsins var haldið í gær og tilkynnt var um sigurvegara keppninnar þar. Í ár var það fyrirtækið Strimillinn, smáforrit sem á að auka verðvitund, sem sigraði í keppninni.
Þetta er í níunda skipti sem Gulleggið er haldið, og vegur keppninnar vex með hverju ári. Ýmis fyrirtæki hafa orðið til eða komið sér á framfæri í tengslum við keppnina, til dæmis Meniga, Sway, Karolina Fund, Pink Iceland og Clara.
Mikilvægi þess að halda keppni eins og þessa er mikið, því málið snýst ekki bara um einfalda hugmyndasamkeppni. Með þátttöku fær fólk hjálp við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Það fær aðstoð og ráðgjöf við það hvernig það á að búa til fyrirtæki, gera raunhæfar áætlanir og eiga samskipti við fjárfesta. Fullt af fólki fær góðar viðskiptahugmyndir en skortir eitthvað annað sem er nauðsynlegt til að góð hugmynd verði að veruleika. Þess vegna eru viðburðir eins og Gulleggið, og starfsemi Klak Innovit yfirhöfuð, gríðarlega verðmæt fyrir samfélag sem ætlar sér að hlúa að sprotafyrirtækjum og nýsköpun.
Pæling dagsins er stutt og laggóð: meira svona!
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.