Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Tölvupóstur sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þann 20. nóvember 2013 sem innihélt greinargerð um hælisleitandann Tony Omos, finnst hvorki hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum né Innanríkisráðuneytinu. Kjarninn sagði frétt þessa efnis, en Persónuvernd álítur tölvupóstinn vera lykilgagn í rannsókninni á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla við upphaf lekamálsins svokallaða. Í kjölfari fréttarinnar sendi Sigríður Björk frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði að umræddur tölvupóstur væri vistaður á póstþjóni lögreglunnar, sem er áhugavert í ljósi þess að lögreglan á Suðurnesjum fann hann ekki. Þá hefur Sigríður Björk óskað eftir lengri frest til að afhenda Persónuvernd umbeðin gögn í málinu, þar sem stofnunin hefur sömuleiðis farið fram á að hún skýri hvernig gagnaöryggi var tryggt þegar hún sendi Gísla Frey áðurnefnda greinargerð um Tony Omos. Frestur Gísla Freys til að afhenda umræddan tölvupóst til Persónuverndar rennur út í dag að óbreyttu.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.