Það var merkilegt að sjá það í tíu fréttum RÚV í gærkvöldi, að dagar Íbúðalánasjóðs (ÍLS) gætu brátt verið taldir, ef EFTA felst á það með Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) að ÍLS eigi ekki að vera í samkeppni við banka og sparisjóði á einkamarkaði. Spurningin sem vaknar, er einfaldlega þessi: Hvað telst vera einkamarkaður þegar kemur að fjármálamarkaðnum? Ríkið er ekki einungis eigandi ÍLS heldur á einnig Landsbankann, og eignarhluti í Íslandsbanka, Arion banka og sparisjóðum sömuleiðis. Svo er það stóra atriðið sjálft, að í gildi er ennþá yfirlýsing stjórnvalda um ábyrgð á innstæðum hjá bönkunum. Það liggur líka fyrir, að ríkið mun stíga inn í og bera ábyrgð á innstæðum í bönkum eftir bankarnir lenda í vandræðum. Fordæmið fyrir því er þegar komið fram. Er til eitthvað sem getur með réttu kallast einkamarkaðurinn þegar kemur að bankakerfinu? Þegar stórt er spurt, er leitað til EFTA um svör. Það verður spennandi að sjá útkomuna...
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.