Fyrsta skrefið í átt til losunar á fjármagnshöftum hefur verið stigið, þótt ekki hafi það verið mjög stórt. Skrefið sem var stigið í gær snýr að aflandskrónueignum, en þær eru nú virði tæplega 15 prósenta af vergri landsframleiðslu. Eins og seðlabankastjóri sagði í gær er þetta undirbúnings- eða öryggisskref áður en gengið verður lengra í losun fjármagnshafta.
Nú verður spennandi að sjá hvað gerist í framhaldinu. Aðgerðin virðist miða að því að stilla erlendum eigum aflandskróna upp við vegg og þvinga þá í stöðu þar sem stjórnvöld geta aflétt spennunni. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talaði á þessum nótum í viðtali við Rúv í gær, þegar hann sagði að það væri „ekkert tekið af neinum en þrengdir mjög fjárfestingarkostirnir,“ sem standa aflandskrónueigendum til boða. Hann sagði líka að gengið væri út frá því að klára þessi mál á fyrri hluta ársins. Þá er spurningin: ef erlendir krónueigendur eiga að komast út, á hvaða gengi munu viðskiptin fara fram? Miðað við síðasta útboð Seðlabankans má reikna með að það verði um 195 til 200 krónur fyrir hverja evru. Már Guðmundsson vildi engu svara um þetta þegar Kjarninn spurði hann í gær.
Bjarni sagði einnig þegar hann var spurður í viðtalinu á Rúv að þetta væru fyrstu skrefin í því að afnema gjaldeyrishöftin. Seðlabankinn talar þó aldrei um afnám hafta, heldur losun, enda ólíklegt að höftin séu á leið burt á næstunni, þótt vonandi fari þau að minnka.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.