Fasteignaverð er að rjúka upp þessa dagana, en hækkunin á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu var 1,8 prósent í febrúar. Hækkunin var sambærileg í desember og janúar. Þetta mjög skörp hækkun, á einungis mánaðartímabili, og ef marka má nýjustu tölur frá Fasteignaskrá þá er veltan að aukast og kaupsamningum að fjölga.
Kjarninn tók saman athyglisverðar tölur um íbúðalánveitingar á dögunum, sem sýna að Íbúðalánasjóður hefur nánast enga hlutdeild þegar kemur að nýjum lánum. Endurreistu bankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, sjá nær alfarið um húsnæðislánveitingar um þessar mundir, og þá einkum og sér í lagi Landsbankinn, sem er næstum 100 prósent í eigu íslenska ríkisins.
Þetta vekur upp spurningar um, hvað íslensk stjórnvöld ætla sér að gera með Íbúðalánasjóð. Hvaða hlutverk hefur hann? Ef hann er næstum alveg hættur að lána til húsnæðiskaupa, miðað við hlutdeild í nýjum lánum, hvað á hann þá að gera? Það er orðið aðkallandi að stjórnvöld komi fram með skýr svör við þessu. Í fljótu bragði virðist ekki vera neitt annað að gera en að renna starfsemi Íbúðalánasjóðs inn í hinn stóra húsnæðislánveitanda ríkisins. Landsbankann.