Kaup á gögnum um fjármunaeignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum hafa verið fyrirferðamikil í fréttum í vikunni. Nú þegar Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, virðast hafa náð saman um að kaupa gögn sem huldumaður hefur boðið íslenskum stjórnvöldum til sölu fyrir um 150 milljónir króna þá hafa eðlilega vaknað margar spurningar um framkvæmdina.
Getur ríkið til dæmis keypt gögn „svart“ eða þarf huldumaðurinn að gefa út reikning og greiða skatt af ágóða sínum einhversstaðar? Er yfir höfuð heimilit samkvæmt lögum að kaupa gögn sem eru illa fengin? Og svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort ríkissjóður þurfi að sækja um undanþágu frá fjármagnshöftum til að verða sér úti um gjaldeyri fyrir þessa fjárfestingu. Fyrirtækjum með alþjóðlega starfsemi hefur mörgum reynst erfitt að fá slíkar undanþágur, nú síðast Promens sem ákvað í kjölfarið að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.