Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir hinum umdeilda náttúrupassa á Alþingi í gær. Frumvarpið um náttúrupassann er eitt heitasta mál vorþingsins, og ljóst að hart verður tekist á um það í sölum Alþingis. Sitt sýnist líka hverjum. Stór hluti ferðaþjónustunnar er til að mynda mjög á móti náttúrupassanum. Mikil meirihluti félagsmanna í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) vildi komugjöld en stjórn SAF ákvað engu að síður að leggja til að gistináttagjaldið yrði hækkað til að standa undir náttúruvernd. Mikil ólga er innan samtakanna vegna þessa.
Margir velta fyrir sér vegferð iðnaðar- og viðskiptaráðherra í málinu, að ætla að þrjóskast í gegn með illa útfærðan náttúrupassa, og telja að mögulega geri ráðherra sér ekki grein fyrir stærð málsins og afleiðingum þess fyrir hennar pólitíska feril. Áttar ráðherra í alvöru sig ekki á því, að þorri landsmanna verður aldrei sáttur við að þurfa að borga fyrir að mega njóta íslenskrar náttúru? Væri ekki ráð að skoða aðrar útfærslur til að afla fjár til uppbyggingar og varðveislu ferðamannastaða á Íslandi? Þá ætti ráðherra að minnsta kosti smá möguleika á að ná sátt í þjóðfélaginu um hvaða leið skuli fara.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.