Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks ætlar ekki að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi, sem fram fer í maímánuði. Hann hafði áður boðað að hann ætlaði að sækjast eftir fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu, en Páll var oddviti flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum og er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis.
Frá þessari nýju ákvörðun segir Páll á Facebook í dag. „Ég komst raunar að þessari niðurstöðu innra með mér strax um síðustu áramót en ákvað samt að leyfa þessum þremur mánuðum að líða áður en ég tæki endanlega ákvörðun; ef eitthvað það gerðist sem kynni að breyta þessari niðurstöðu. Það gerðist ekki,“ skrifar Páll.
Áhuginn dofnað og neistinn kulnað
Hann segir að ákvörðun sín sé ekki tekin „vegna neinna ytri aðstæðna í pólitíkinni“ heldur sé ákvörðunin persónuleg.
„Oft þegar ég hef staðið frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum og áskorunum lýkur vangaveltunum bara með einni einfaldri spurningu: Langar mig nógu mikið til að gera þetta? Svarið að þessu sinni er nei. Ég stóð frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu fyrir tæpum 5 árum og þá var svarið já. En nú hefur áhuginn einfaldlega dofnað - neistinn kulnað,“ skrifar Páll.
Um það að hann hafi sagt fyrir einungis nokkrum vikum að hann ætlaði að gefa kost á sér áfram segir Páll: „Jú, það er einfalda reglan um að þangað til ný ákvörðun er tekin þá gildir sú gamla!“
Páll boðar að þetta sé persónulega niðurstaðan – „pólitíska kveðjubréfið“ komi svo innan tíðar.
Studdi ekki Sjálfstæðisflokkinn í Eyjum árið 2018
Páll rekur ættir sínar til Vestmannaeyja og átti þar öflugt bakland í prófkjörsbaráttu flokksins árið 2016, er hann velti Ragnheiði Elínu Árnadóttur úr oddvitasætinu í Suðurkjördæmi. Síðan tók Páll sæti á þingi 2016 og leiddi flokkinn aftur til kosninga í kjördæminu eftir að stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk haustið 2017.
Í Vestmannaeyjum, sem lengi hefur verið mikið vígi Sjálfstæðisflokks, kom fram klofningsframboðið Fyrir Heimaey í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018. Íris Róbertsdóttir, nú bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, leiddi það framboð, sem hafði sigur í kosningunum og myndar nú bæjarstjórnarmeirihluta með Eyjalistanum – á meðan sjálfstæðismenn sitja í minnihluta.
„Það er engin launung á því að við Sjálfstæðismenn í Eyjum erum mjög ósátt við framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna,“ sagði Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum við Fréttablaðið á sínum tíma.
Í umfjöllun Fréttablaðsins sagði að Páll hefði ekki stutt við bakið á framboði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum vegna vináttusambands síns við Írisi. Í ljósi þess hve mjótt var á munum hefði það skipt miklu máli þegar upp var staðið.
Einn viðmælandi blaðsins á þessum tíma sagði taldi einsýnt að Páll myndi aldrei aftur hafa sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sunnanlands.
Prófkjör flokksins í Suðurkjördæmi á að fara fram í lok maí. Guðrún Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Kjöríss og Vilhjálmur Árnason alþingismaður hafa gefið kost á sér í oddvitasætið.