Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að Barack Obama Bandaríkjaforseti, og hans fólk, hafi náð sögulegum árangri við stjórn landsins frá því hann tók við stjórnartaumunum, í byrjun árs 2009, eftir kosningarnar 4. nóvember 2008. Í ítarlegri grein sem Krugman skrifaði í Rolling Stone í síðustu viku, segir hann að Obama sitji nú undir ósanngjarnri gagnrýni frá vinstri, hægri og úr miðjunni á hinum pólitíska skala í Bandaríkjunum.
„Þrátt fyrir að allt er forsetatíð hans ein sú árangursmesta í sögu Bandaríkjanna,“ segir Krugman. Hann vitnar sérstaklega til endurskipulagningar á heilbrigðiskerfinu, sem hann segir að sé að heppnast miklu betur en „allir þorðu að vona“. Þá hafi stjórn hans á efnahagsmálum gengið vel, þrátt fyrir að hún hafi ekki verið gallalaus. Gríðarleg vandamál sem blöstu við þegar hann tók við séu nú að baki. „Þá bendir allt til þess að áherslur hans í umhverfismál verði til þess að styrkja stöðu Obama verulega þegar fram í sækir,“ segir Krugman.
Staða efnahagsmála í Bandaríkjunum hefur verið að vænkast nokkuð að undanförnu, sé horft til atvinnuleysis- og hagvaxartalna sérstaklega. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna frá því að Obama tók við, en það mældist 6,1 prósent í ágúst. Það fór hæst yfir 10 prósent á árunum 2009 og 2010.