Á sama tíma og neðanjarðarlestarkerfum í heiminum hefur fjölgað um 90 á tveimur áratugum snýst umræðan í Reykjavík um hvort sérstakar akreinar fyrir almenningsvagna á hjólum eigi að liggja hægra megin á götunni eða vera fyrir miðju, „hvort flottari strætóstöðvar kosti of mikið, hvort vagnarnir trufli aðra umferð og hvort reksturinn verði okkur ofviða. Allt lögmætar spurningar, en auðséð er að í alþjóðlegu samhengi er Borgarlínuhugmyndin kurteis og hófstillt. En hvað með neðanjarðarlestir?“
Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, veltir þessu fyrir sér í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Tilefnið er dvöl hans í borginni Brescia á Norður-Ítalíu í sumar. Í borginni búa um 200 þúsund manns og þar er að finna nýjasta neðanjarðarlestarkerfi Evrópu, tekið í notkun árið 2013.
„Borgin er þannig svipuð að íbúatölu og flatarmáli og höfuðborgarsvæðið og þótt þéttbýlið í kring sé vitanlega eitthvað stærra þá er Brescia samt mun nær því að vera eins og Reykjavík heldur en að vera einhver London eða París,“ skrifar Pawel. Þar sé að finna fjórtán kílómetra langa neðanjarðarlestarlínu með 17 stöðvum.
„Auðvitað yrðu sjálfvirkar neðanjarðarlestir frábærar í landi grænnar orku, dýrs vinnuafls og misjafnrar veðráttu,“ heldur hann áfram. Fólk gæti komið sér á næstu stöð og ferðast í hlýju og þægindum alla leið til vinnu eða skóla án þess á hafa áhyggjur af því að illa búnir smábílar tefji ferðalagið í fyrsta snjó. „Ef einhver hefði verið nægilega hugaður (eða sturlaður) til að byggja neðanjarðarlestir í Reykjavík þá myndi fólk nota þær, vilja búa nálægt þeim, krefjast þess að þær gengju allan sólarhringinn og allar kosningabaráttur snúast um hver myndi lofa því að lestin kæmi í sem flest hverfi sem fyrst.“
Neðanjarðarlestarkerfið í Brescia kostaði á sínum tíma um 900 milljónir evra, sem er um 130 milljarðar króna. Það er svipuð upphæð og lögð er í samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, bendir Pawel á. „Samgöngusáttmálinn er bæði grænn og grár. Um helmingur fjármuna hans fer í Borgarlínu en hinn helmingur í akvegi. Það er ákveðið jafnvægi og auðvitað skref í rétta átt. En við þurfum að halda áfram og við höfum varla val um annað en að verða enn grænni í framtíðinni.“
Á atvinnusvæði höfuðborgarinnar, suðvesturhorninu, búa nú þegar um 300 þúsund manns. Þeim á bara eftir að fjölga. „Eigum við að leysa samgöngur þessa svæðis einungis með tvíbreiðum vegum þar sem bannað er að hjóla og niðurgreiddum strætisvögnum milli bensínstöðva bæjarfélaganna á tveggja tíma fresti? Þurfum við ekki að hugsa þetta aðeins metnaðarfyllra?“
Rómantík eða praktík?
Á fyrstu tveimur áratugum aldarinnar hefur neðanjarðarlestarkerfum í heiminum fjölgað um 90 og eru orðin um 200 talsins. „Þannig að þrátt fyrir það sem sumir halda eru lestir ekki einhver úrelt tækni sem allar borgir eru að hverfa frá,“ skrifar Pawel. „Af og til hafa möguleikar á lestum á Íslandi verið rýndir af mismiklum þunga og svarið hefur hingað til verið að lestir borgi sig ekki. En eftir því sem tækni fleygir fram og íbúum fjölgar kann að koma að því að svarið breytist.“ Kannski sé draumurinn um lest að einhverju leyti byggður á rómantík „en þegar maður lendir í Keflavík, labbar fram hjá bílaleiguröðinni, keyrir út af risabílastæði og brunar heim á bensínbíl á tvíbreiðum vegi, samferða nánast öllum í sömu vél þá er eitthvað sem hvíslar að manni: „Það myndi nú stundum ekki drepa okkur að hugsa stórt“.“
Lest til Keflavíkur
Landvernd hefur einnig nýverið bent á að vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda við ferðir fólks til og frá Keflavíkurflugvelli ætti „alvarlega“ að taka lestarsamgöngur á þessari leið til skoðunar. „Alvarlega ætti að skoða að koma á rafmagnslest frá Reykjavík til Keflavíkur sem myndi draga úr umferð einkabíla og flugrúta með tilheyrandi beinni losun en einnig töluvert minna sliti á vegum sem einnig er uppspretta losunar og svifryks,“ sagði í umsögn samtakanna um drög að stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskipti í flugi. Landvernd bendir á að í þeim löndum sem við berum okkur saman við sé lögð áhersla á góðar almenningssamgöngur til og frá flugvöllum. „Hér á landi virðist meiri áhersla vera lögð á að gæta hagsmuna einkafyrirtækja með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Að mati Landverndar ætti að skoða þennan þátt losunar tengdu flugi mun betur.“