Sepp Blatter, forseti FIFA, gerði hlé á blaðamannafundi FIFA eftir að fölsuðum peningaseðlum hafði verið kastað yfir hann. Breski grínistinn Lee Nelson var þar að verki en hafði fundið sér leið inn á fundinn sem fulltrúi norður-kóreska knattspyrnusambandsins.
Á vef breska blaðsins The Guardian er myndband af atvikinu. Þar sést Nelson ganga á sviðið þar sem Blatter og annar fulltrúi FIFA sátu. Einnig er greint frá því að Nelson hafi komist inn á blaðamannafund FIFA með tvö seðlabúnt. Annað hafi hann lagt á borðið hjá Blatter og sagt peningana vera frá Norður-Kóreu til forseta FIFA. Nelson hélt svo stutta ræðu undir köllum Blatters á öryggisverði sem voru fljótir að ná Nelson af sviðinu.
https://youtu.be/0pqO6tK8_Wg
Áður en honum var kippt frá náði hann hins vegar að kasta peningum yfir forseta FIFA, sem er spaugilegt enda hefur Blatter verið bendlaður ítrekað við spillingu í starfi sínu. Þar bera ákvarðanir um að halda heimsmeistarakeppnina í fótbolta í bæði Katar og Rússlandi.
Nýverið voru gefnar út ákærur á hendur níu stjórnarmönnum hjá FIFA eftir áralanga rannsókn alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum. Blatter var ekki meðal þeirra sem ákærðir voru en hans helstu samstarfsmenn sæta nú frekari rannsókn.
Blatter gerði hlé blaðamannafundinum með því að stíga í pontu og segja að ekki væri hægt að halda honum áfram fyrr en búið væri að taka til. „Þetta hefur ekkert með fótbolta að gera,“ sagði hann að lokum.