Persónuafsláttur einstaklinga er 610.825 krónur fyrir árið 2015 eða 50.902 krónur að meðaltali á mánuði. Það er hækkun um 4.848 krónur frá árinu 2014, eða um 404 krónur á mánuði. Hækkunin nemur 0,8% en hún er lögum samkvæmt í takt við verðbólguþróun.
Fjallað er um persónuafslátt, staðgreiðslu og tryggingagjald ársins 2015 í grein í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Fram kemur að skattleysismörk tekjuskatts og útsvars eru samkvæmt þessu alls 142.153 krónur á mánuði, að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldargreiðslu launþegar í lífeyrissjóð. Skattleysismörk á síðasta ári voru 141.025 krónur.
Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu eiga rétt á persónuafslætti. Sama gildir um þá sem hafa rétt til að halda skattalegu heimili á íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis vegna náms eða veikinda.
Skattþrep tekjuskattsstofn breytt
Mishár tekjuskattur er greiddur eftir því hversu háar tekjurnar eru. Mörkin milli skattþrepa taka breytingum í upphafi hvers árs í hlutfalli við hækkun launavísitölunnar tólf mánuði á undan. Launavísitalan hækkaði um 6,6 prósent á síðasta ári og tekjuviðmiðunarmörk, það eru skattþrepin, hækkuðu í samræmi við það. Í Tíund er eftirfarandi tafla birt sem sýnir hvernig tekjuskatturinn er þrepaskiptur.
Þrepaskipting tekjuskattsins. Mynd úr Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.
Staðgreiðsla opinberra gjalda samanstendur af tekjuskattinum sem rennur í ríkissjóð og útsvarsgreiðslum til þess sveitarfélag sem launamaður býr í. Útsvar er að hámarki 14,52 prósent en meðalútsvar á landinu er 14,42 prósent, að því er fram kemur í Tíund. Taflan hér að neðan sýnir hvernig staðgreiðsla útsvars og tekjuskatts skiptist á árinu 2015 eftir launaþrepum.
Þrepaskipting staðgreiðslugjalda. Tafla úr Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.