Stjórn Persónuverndar náði ekki að ljúka athugun sinni á samskiptum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, á fundi sínum í gær eins og vonir stóðu til.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Persónuvernd álíti tölvupóst, sem Sigríður Björk sendi Gísla Frey með greinargerð um hælisleitandann Tony Omos að kvöldi dags þegar fyrstu fréttirnar í lekamálinu birtust í fjölmiðlum, vera lykilgagn í rannsókn stofnunarinnar. Eins og kunnugt er byggðu umræddar fréttir á minnisblaði sem Gísli Freyr lak til fjölmiðla, og hlaut skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Við eftirgrennslan Persónuverndar fengust þau svör hjá innanríkisráðuneytinu og lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum að tölvupóstinn væri þar hvergi að finna. Þá óskaði Persónuvernd bréfleiðis eftir því að Sigríður Björk og Gísli afhentu tölvupóstinn. Þá krafði Persónuvernd Sigríði um skýringar á því hvernig hún hefði tryggt gagnaöryggi þegar hún sendi Gísla Frey greinargerðina um Tony Omos. Persónuvernd féllst á beiðni Sigríðar um framlengdan frest til að afhenda umbeðin gögn, sá frestur rann út á föstudaginn.
Öll umbeðin gögn komin til Persónuverndar
Í samtali við Kjarnann segir Björg Thorarensen, stjórnarformaður Persónuverndar, að öll umbeðin gögn vegna málsins hafi nú skilað sér til stofnunarinnar. Vonir hafi staðið til að ljúka málinu á fundi stjórnarinnar í gær, en það hafi ekki reynst gerlegt. Björg segir að nú sé unnið að því að fara gaumgæfilega yfir gögn, og útilokar ekki að Persónuvernd muni óska eftir frekari gögnum vegna rannsóknarinnar. Aðspurð um hvað hafi valdið seinkun á fyrirhugaðri afgreiðslu málsins, vildi stjórnarformaður Persónuverndar ekki svara neinu til um það.
Næsti stjórnarfundur hjá Persónuvernd er fyrirhugaður 26. febrúar næstkomandi. Stofnunin mun því ekki afgreiða málið fyrir sitt leyti fyrr en í fyrsta lagi þá. Í framhaldinu verður málsaðilum kynnt niðurstaða stofnunarinnar og hún birt að loknum umsagnarfresti. Því er ljóst að töluverður dráttur verður á birtingu úrskurðar Persónuverndar.