Áform eru uppi um að breyta löggjöf um persónuvernd á þann veg að Persónuvernd verði ekki lengur skylt að kveða upp úrskurð í öllum þeim kvörtunarmálum sem berast til stofnunarinnar, en þessi áform eru til þess ætluð að minnka álag á Persónuvernd, sem hefur aukist á undanförnum árum. Frumvarpsdrög frá dómsmálaráðuneytinu um þessar breytingar á lögum sem varða persónuvernd, og nokkrar til viðbótar, hafa verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Í drögunum kemur fram að íslensk lög um persónuvernd gangi lengra en kveðið er á um í Evrópureglugerð hvað varðar skyldu Persónuverndar til þess að kveða upp úrskurði um þær kvartanir sem berast.
„Með því að fella brott þá skyldu Persónuverndar að rannsaka allar kvartanir og úrskurða um þær ætti að vera mögulegt að stytta málsmeðferðartíma þeirra kvartana sem tilefni þykir að rannsaka en vegna mikils fjölda kvartana til stofnunarinnar hefur málsmeðferðartími þeirra mála um nokkurt skeið verið langt umfram það sem getur talist ásættanlegt og hafa sum hver verið til meðferðar í hátt á þriðja ár,“ segir í frumvarpsdrögunum.
Í staðinn fyrir að Persónuvernd rannsaki hverja einustu kvörtun og kveði upp úrskurð vegna þeirra er lagt til að stofnuninni verði gefið rýmið til þess að ákveða sjálf hvort ráðist verði í rannsókn á málum. Á móti yrði Persónuvernd falið að upplýsa kvartanda um framvindu og niðurstöður máls innan hæfilegs tíma, sem og um möguleikann á að bera ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar undir dómstóla, þar með talið ákvarðanir Persónuverndar um að taka kvörtun ekki til rannsóknar.
Fjöldi mála sem berast inn til Persónuverndar hefur verið í nær stöðugum vexti undanfarin ár og er gert ráð fyrir því að á þessu ári berist stofnuninni fleiri en 2.500 mál, þar af mörg kvörtunarmál sem öllum þarf að ljúka með úrskurði samkvæmt gildandi lögum.
Stjórn þurfi ekki að koma saman til að leggja á dagsektir
Þetta er ekki eina ákvæði persónuverndarlaga sem til stendur að breyta. Einnig á að breyta því hvernig Persónuvernd getur lagt á dagsektir, en samkvæmt lögum hefur Persónuvernd heimild til að gera það þegar ekki er farið eftir fyrirmælum sem stofnunin gefur.
Hins vegar er í lögunum kveðið á um að stjórn Persónuverndar taki slíkar ákvarðanir, en mat stofnunarinnar og stjórnar er að „ekki sé raunveruleg þörf á aðkomu stjórnar við ákvarðanatöku um álagningu dagsekta í öllum tilvikum“ auk þess sem það geti verið „mjög þungt í vöfum“ að kalla saman stjórnina til að taka ákvörðun um beitingu dagsekta.
Til viðbótar er svo lagt til að heimildir Persónuverndar til að leggja dagsektir á aðila verði rýmkaðar, og nái yfir þau tilfelli þegar ekki er orðið við beiðnum stofnunarinnar um upplýsingar eða aðgang að gögnum eða húsnæði.
„Eins og lögin eru nú væri þá eina úrræðið að leggja á stjórnvaldssekt, sem telst mun meira íþyngjandi úrræði en dagsektir. Reynsla Persónuverndar hefur sýnt að oft nægir að taka fram að stofnunin hafi heimildir til að leggja á dagsektir til að knýja hlítningu við lögin eða fyrirmæli stofnunarinnar. Brýnt er að Persónuvernd hafi þau tæki sem til þarf til að stofnunin geti rækt hlutverk sitt við eftirlit með framkvæmd laganna. Er því lagt til að heimild til álagningar dagsekta í þessum tilvikum verði lögfest,“ segir í frumvarpsdrögunum.