Ofursmellur Pharell Williams, „Happy“, er mest streymda lagið á Spotify það sem af er árinu 2014, Katy Perry var sá kvennkyns tónlistarmaður sem fékk mesta hlustun og Ed Sheeran varð hlutskarpastur karlkyns-tónlistarmanna. Plata Ed Sheeran, „x“, var auk þess mest streymda plata í heiminum og Coldplay var sú hljómsveit sem notendur Spotify hlustuðu mest á. Þetta kemur fram í nýbirtum lista Spotify, „Year In Review“, þar sem horft er aftur til þess sem gerst hefur á árinu 2014.
https://www.youtube.com/watch?v=y6Sxv-sUYtM
Hlustuðu á 800 þúsund ár af tónlist
Virkir notendur Spotify eru orðnir um 50 milljónir og þeir hafa streymt um sjö milljörðum klukkustunda af tónlist það sem af er ári. Það þýðir að þeir hlustuðu samtals á um 800 þúsund ár af tónlist á árinu, sem er reyndar enn ekki lokið.
Fimm vinsælustu karlkyns-tónlistarmennirnir voru, í þessari röð, Ed Sheeran, Eminem, Calvin Harris, Avicii og David Guetta. Hjá konunum var, líkt og áður segir, Katy Perry í efsta sæti. Á eftir henni kom Ariana Grande, Lana Del Rey, Beyoncé og nýsjálenska unglingaundrið Lorde.
Topp fimm listinn yfir vinsælustu hljómsveitir ársins á Spotify var eftirfarandi: Coldplay, Imagine Dragons, Maroon 5, OneRepublic og One Direction.
Hér að neðan er hægt að sjá listann yfir tíu vinsælustu lögin á Spotify það sem af er árinu 2014.
- „Happy" Pharell Williams
- „Rather Be" Clean Bandid (ft. Jess Glynne)
- „Summer"Calvin Harris
- „Dark Horse" Katy Perry
- „All Of Me" John Legend
- „Timber" Pitbull
- „Rude" Magic
- „Waves" Mr. Probz
- „Problem" Ariana Grande
- „Counting Stars" OneRepublic