Flokkur Pírata mælist með 32,7 prósent fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR, og bætir við sig 0,7 prósentustigum á milli kannana. Píratar mælast sem fyrr lang stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi samkvæmt könnun MMR.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 23,1 prósent fylgi, og bætir við sig 1,2 prósentum á milli kannana. Samfylkingin nýtur stuðnings 13,1 prósents aðspurðra og bætir við sig 2,4 prósentum frá því í apríl. Vinstri græn mælast nú með 10,4 prósent og tapa 0,4 prósentustigum frá síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins er enn í frjálsu falli samkvæmt skoðanakönnun MMR, en flokkurinn mælist nú með 8,6 prósent fylgi, og lækkar um 2,2 prósent á milli kannana.
Hið sama má segja um Bjarta framtíð, sem nú nýtur stuðnings 6,3 prósenta aðspurðra, samanborið við 8,3 prósent í síðustu könnun.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst á milli kannana og mælist nú 31,4 prósent, samanborið við 30,7 prósent í síðustu mælingu MMR. Þá naut ríkisstjórnin stuðnings 35,3 prósenta aðspurðra í mælingu MMR sem lauk 8. apríl síðastliðinn.