Píratar mælast með 32 prósenta fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR. Flokkurinn mælist langstærstur, með um tíu prósentum meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist með 22 prósent.
Aðrir flokkar eru með um og undir tíu prósenta fylgi samkvæmt könnuninni. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,8 prósenta fylgi eins og Vinstri græn, Samfylkingin mælist með 10,7 prósent og Björt framtíð 8,3 prósent.
Í síðustu könnun MMR, sem lauk í byrjun apríl, mældust Píratar með 27,4 prósent. Þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 22,9 prósent og Framsóknarflokkurinn með 13,1. VG mældust síðast með 9,8 prósent og bæta því við sig. Samfylkingin fer úr 11,4 í 10,7 og Björt framtíð mældist með 10,3 prósent í síðustu könnun en 8,3 prósent nú.
Vikmörk í könnun sem þessari eru allt að 3,1 prósent. 1001 einstaklingur var spurður í könnuninni, sem var framkvæmd dagana 16. til 21. apríl.
Óánægjufylgið til Pírata
Fyrir helgi birtist nýr Þjóðarpúls Gallup þar sem Píratar mældust einnig stærsti stjórnmálaflokkurinn, með rúmlega 30 prósenta fylgi. 30 prósenta fylgi eins og flokkurinn mælist nú með er sexfalt meira fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Þar mældist fylgi vinstri grænna 10,6 prósent og hækkaði örlítið milli kannanna, en aðrir flokkar á þingi misstu fylgi á sama tíma. Sjálfstæðisflokkurinn mældist í þjóðarpúlsinum með minnsta fylgi á kjörtímabilinu eða 22,9 prósent, og tapaði 2,1 prósentustigi, Framsóknarflokkurinn mældist með 10,1 prósent og tapaði 0,7 prósentum, Samfylkingin tapaði 1,7 prósentum á milli kannanna og mældist með 14,1 prósent, talsvert meira en í könnun MMR. Þá hélt fylgi Bjartrar framtíðar áfram að minnka, en flokkurinn mældist með 7,8 prósent og tapaði 3,1 prósentustigi á milli kannanna Gallup. Björt framtíð hefur tapað um tveimur fimmtu af sínu fylgi á tveimur mánuðum og mældist með minnsta fylgi sem mælst hefur við flokkinn á kjörtímabilinu í þjóðarpúlsinum.
„Fljótt á litið lítur þetta út eins og óánægjufylgi. Þetta er samskonar fyrirbrigði og við höfum séð oft áður, að einhver stjórnarandstöðuflokkurinn rýkur upp og það hefur ekkert endilega með hugmyndafræði flokksins að gera. Ég hef grun um að ansi fáir af þessum 30 prósentum hafi skýra mynd af stefnumálum Pírata, þetta er meira þannig að fólk sé að leita sér að valkostum við ríkjandi ástand,“ sagði Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hjá Háskóla Íslands í samtali við Kjarnann um þjóðarpúls Gallup.
„Þetta er náttúrulega alvarlegt fyrir ríkisstjórnina, hún kemur gríðarlega veikt út úr þessu og mikil óánægja er með hana. En þetta er ekki síður alvarlegt fyrir hina stjórnarandstöðuflokkana, af því að undir venjulegum kringumstæðum myndi einhver slíkur flokkur rjúka upp. Þetta er eitthvað sem er að gerjast í okkar samfélagi og reyndar í mörgum öðrum, að gömlu flokkarnir eiga erfiðara og erfiðara að laða að sér fólk. Við erum með flokkakerfi sem mótaðist í allt annars konar þjóðfélagi en við búum í núna, og það er ekkert óeðlilegt að fólk sé eitthvað dufla við eitthvað annað núna,“ sagði hann einnig.
Gunnar Helgi vill fara varlega í það að túlka mikla fylgisaukningu við Pírata sem einhvers konar stuðningsyfirlýsingu við stefnumál flokksins. Hins vegar hafi framganga flokksins að undanförnu vafalítið skilað sér í auknu fylgi, en það sama sé ekki upp á teningnum hvað varðar Bjarta framtíð. „Þeir ná betur að tjá óánægju og kannski reiði og eitthvað þvíumlíkt heldur en Björt framtíð sem hefur kannski lagt áherslu á að vera mildari og hafa annan tón í pólitík á meðan Píratarnir eru hvassari, en án þess að hafa misst sig í einhverja vitleysu.“