Píratar myndu fá 29,1 prósent atkvæða ef kosið yrði til Alþingiskosninga í dag og 19 þingmenn, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í dag. Þetta er önnur könnunin á skömmum tíma sem sýnir mikla fylgissveiflu yfir til Pírata en MMR birti á fimmtudag könnun þar sem fylgi flokksins var 23,4 prósent. Píratar fengu um fimm prósent atkvæða í síðustu kosningum og eiga þrjá þingmenn í dag.
Vinsældir Pírata eru langmestar hjá yngra fólki en 38 próent svarenda í aldurhópnum 18-49 ára sögðust myndu kjósa Pírata ef gengið yrði til kosninga í dag.
Mest tap hjá Sjálfstæðisflokknum
Framsóknarflokkur bætir lítillega við fylgi sitt á milli kannana blaðsins og mælist nú með 11,6 prósent atkvæða. Samfylkingin bætir einnig við sig 0,2 prósentum og mælist með 16,3 prósent. Aðrir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag tapa fylgi. Björt framtíð og Vinstri græn mælast með 9,0 prósent fylgi og yrðu saman minnstu flokkarnir á þingi ef kosið yrði í dag. En sá flokkur sem tapar mest milli kannana er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann fer úr 28,0 prósent í könnun sem var gerð 10. og 11. mars í 23,4 prósent núna.
Ljóst er að ef þetta yrðu niðurstöður kosninga þá væri ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra kolfallinn. Stjórnarflokkarnir myndu fá samtals 22 þingmenn af 63. Eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn við þessar aðstæður væri stjórnarsamstarf Pírata og Sjálfstæðisflokks.
Aðferðarfræði könnunar Fréttablaðsins var þannig að hringt var í 1.078 manns þar til að náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 18. Og 19. mars. Svarhlutfall var 74,3 prósent.