Tólf þingmenn Pírata og Samfylkingar hafa lagt fram frumvarp um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í frumvarpinu er lagt til nýtt ferli við breytingu á stjórnarskrá. Í dag er fyrirkomulagið þannig að Alþingi þarf að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Í kjölfarið skal rjúfa þing og boða til kosninga. Samþykki nýkjörið Alþingi breytingarnar taka þær gildi.
Í frumvarpinu er lagt til að þessu fyrirkomulagi verði breytt þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á stjórnarskrá skuli efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um það.
Frumvarpið byggist á hugmyndum stjórnlagaráðs eins og þær þróuðust við meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir kosningar árið 2013. Í greinargerð þess segir að þó að sú breyting hafi verið gerð að felld er brott krafa um að aukinn meirihluti þings og þjóðar samþykki breytingarnar. „Telja flutningsmenn að ekki sé þörf á þessum háa þröskuldi, enda hafi þingheimur sýnt að hann umgangist breytingar af þessu tagi af mikilli varfærni og því ólíklegt að naumur meirihluti verði fyrir verulega umdeildum breytingum.“
Tryggi almenningi síðasta orðið
Í greinargerðinni segir einnig að því sé ætlað tvíþætt hlutverk. Annars vegar að lögfesta leið til að breyta stjórnarskránni sem er mun lýðræðislegri en mælt er fyrir um nú, þar sem undirstrikað verði skýrt og skorinort að almenningur sé stjórnarskrárgjafi og eigi ætíð síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Núverandi fyrirkomulag leiðir til þráteflis
Þingmennirnir telja að reynslan sýni að ókostir þess fyrirkomulags sem eru nú við lýði séu nokkrir. Í fyrsta lagi liggi meginþungi umræðu um allar stjórnarskrárbreytingar við lok hvers kjörtímabils eins og málum sé nú háttað. Þá séu störf þingsins gjarnan tekin að þyngjast og hætt við að grundvallarbreytingar á stjórnarskránni hljóti ekki þá athygli sem þeim ber.
Í öðru lagi sé ekki tryggð nein bein aðkoma almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Segja má að með núverandi fyrirkomulagi sé kosið um stjórnarskrárbreytingar samhliða almennum þingkosningum, en reynslan hefur verið sú að kosningar sem haldnar eru í kjölfar slíks þingrofs snúist ekki um inntak breytinga á stjórnarskránni.“
Í þriðja lagi sýni reynsla undanfarinna ára að núverandi fyrirkomulag hafi leitt til þráteflis á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar. „Hvort sem um er að ræða stærri eða smærri atriði hefur þinginu ekki auðnast að gera varanlegar breytingar á stjórnarskránni frá því að mannréttindakafla var bætt við 1995 og kjördæmamörkum breytt árið 1999.“