Fylgi stjórnarflokkanna þriggja hefur hrunið eftir að hneykslismál síðustu daga og vikna, sem fela í sér atvik á Búnaðarþingi og umdeilda bankasölu, komust í hámæli. Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kemur fram að samanlagt fylgi stjórnarflokkanna hafi verið mælst 49 prósent 17. mars til 6. apríl. Frá þeim degi og fram til dagsins í dag mældist samanlagt fylgi þeirra hins vegar 41,4 prósent. Frá þessu er greint á Vísi.
Fylgistapið dreifist nokkuð jafnt milli stjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn missti 2,3 prósentustig milli mælingartímabilanna og er með 20,8 prósent fylgi. Vinstri græn tapa 2,6 prósentustigum og mælast með sjö prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn fer úr 16,3 í 13,6 prósent.
Á hinn bóginn hefur fylgi þeirra stjórnarandstöðuflokka sem hafa verið háværastir í gagnrýni á stjórnarflokkanna vegna rasískra ummæla Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, og eftirmála sölu á 22,5 prósent hlutar í Íslandsbanka bætt gríðarlega miklu fylgi við sig síðustu daga. Á tímabilinu 17. mars til 6. apríl mældist samanlagt fylgi Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar 33 prósent. Frá 6. apríl og til dagsins í dag mældist það hins vegar 45,4 prósent. Þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar mældust samkvæmt þessu með meira fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir þrír síðustu daga.
Þeir stjórnarandstöðuflokkar sem hafa látið minna fyrir sér fara í gagnrýni á atburði síðustu daga lækka umtalsvert í fylgi. Flokkur fólksins mældist með 8,8 prósent stuðning á fyrra tímabilinu en 5,1 prósent frá 6. apríl. Fylgi Miðflokksins mældist 4,3 prósent frá 17. mars til 6. apríl en 3,9 prósent eftir það.
Sósíalistaflokkurinn, sem á ekki fulltrúa á þingi fór úr 4,8 í 4,2 prósent fylgi á milli tímabilanna sem könnunin náði yfir.