Píratar mælast með mest fylgi allra flokka á þingi, samkvæmt nýrri könnun MMR. Munurinn á fylgi Pírata og Sjálfstæðisflokksins er þó innan tölfræðilegra vikmarka. Allir aðrir flokkar en Píratar mælast með minna fylgi nú en þeir gerðu í síðustu könnun MMR, sem lauk þann 19. febrúar.
Píratar mælast með 23,9 prósenta fylgi í könnuninni, sem er gríðarleg fylgisaukning frá síðustu könnun MMR í febrúar. Þá mældust þeir með 12,8 prósenta fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,4 prósent, en í síðustu könnun mældist fylgi flokksins 25,5 prósent.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 15,5 prósent en var 14,5 prósent í síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með 11 prósenta fylgi en fékk 13,1 prósent í síðustu könnun. Þá eru Vinstri græn með 10,8 prósenta fylgi nú samanborið við 12,9 í febrúar og Björt framtíð mælist með 10,3 prósent en mældist með 15 prósent síðast.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist einnig minni nú en í síðustu mælingu MMR. 33,4 prósent aðspurðra sögðust styðja ríkisstjórnina nú en 36,4 prósent um miðjan febrúar.
Hafa verður í huga að vikmörk í könnunum sem þessum geta verið allt að 3,1 prósent. Könnunin var gerð dagana 13. til 18. mars og heildarfjöldi svarenda voru 969 einstaklingar, 18 ára og eldri.