Aðalfundi Pírata fyrir alþingiskosningarnar í haust, sem fram átti að fara dagana 14. til 15. ágúst, hefur verið frestað um eina viku og fer fram helgina 21. til 22. ágúst. Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að ástæðan sé kórónuveirusmit starfsmanns Vogs á Fellsströnd, þar sem aðalfundurinn fer fram.
„Hluti starfsfólks var settur í sóttkví eins og reglur kveða á um og er því ekki hægt að halda stærri viðburði á hótelinu vegna manneklu,“ segir í tilkynningu flokksins.
Píratar ákváðu þrátt fyrir þetta að halda sig við það að halda fundinn á Fellsströnd, sem er í Dalasýslu.
„Fyrirtæki og stofnanir um allt land hafa þurft að skella tímabundið í lás þegar upp hafa komið smit en halda að því loknu ótrauð áfram. Að lifa með faraldrinum þýðir ekki að öll starfsemi skuli stöðvuð endanlega heldur vera nógu sveigjanleg til að bregðast við uppákomum sem þessum,“ segir í tilkynningu Pírata.
Þar kemur fram að ítrustu sóttvarnir verði iðkaðar á aðalfundinum, í samræmi við verklagsreglur flokksins í faraldrinum sem unnar voru í samráði við almannavarnir.
„Þannig er fjöldi fundarfólks takmarkaður við 100, en gildandi sóttvarnatakmarkanir kveða á um 200 manna hámark. Þá verður jafnframt stuðst við aðrar hefðbundnar ráðstafanir; s.s. spritt, fjarlægðarmörk, grímur þar sem ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk o.s.frv.“
Öllum fundinum verður auk þess streymt í gegnum fjarfundabúnað flokksins. Frestur til þátttöku á fundinum hefur verið framlengdur um viku vegna þessara breytinga og sömuleiðis framboðsfrestur í nefndir, stjórnir og ráð sem kosið er um á aðalfundi flokksins.