Þingflokkur Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggi fram frumvarp sem veiti Menntasjóði námsmanna heimild til niðurfellingar á námslánum, að hluta til eða öllu leyti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Skilyrðin eiga að vera almenn eins og að umbreyta hluta af eldri lánum í námsstyrk, vegna efnahagsástands eða sértæk vegna alvarlegra og varanlegra veikinga lántaka. Píratar vilja að ráðherrann leggi fram frumvarp um málið á vorþingi 2023.
Fjárfesting sem sé ekki ólík styrkjum til nýsköpunar
Í greinargerð sem fylgir tillöguna segir að námslán og námsstyrkur sé fjárfesting hins opinbera í menntun landsmanna. „Sú fjárfesting er ekki ólík styrkjum til nýsköpunar. Það er ekki óalgengt að nýsköpunarverkefni heppnist ekki sem skyldi, en það kemur ekki í veg fyrir áframhaldandi styrki til nýsköpunar, því á heildina litið er sú fjárfesting arðbær. Sama gildir um námsstyrki.“
Framlag í afskriftarsjóð jókst um rúma fimm milljarða í fyrra
Á árinu 2020 voru sett ný lög um námslán og tóku þau gildi 1. júli 2020. Árið 2021 var því fyrsta heila árið þar sem nýju lögin eru í gildi.
Í nýju lögunum eru lánþegum gefnir ýmsir valkostir um hvernig þeir geti hagað endurgreiðslum námslána sinna. Í grófum dráttum snerist breytingin um það að námsmenn sem ljúka námi á réttum tíma geta fengið hluta sinna námslána niðurfelld eftir að námi lýkur, eða 30 prósent þeirra. Auk þess var það einnig að finna ýmis ákvæði sem hafa áhrif á eldri námslán, svo sem niðurfelling ábyrgðarmanna, aflsátt vegna auka innborgana inn á námslán, hækkun á uppgreiðsluafslætti, lækkun vaxta og árlegra endurgreiðslna.
í ársreikningi Menntasjóðs námsmanna vegna ársins 2021 kemur fram að ýmis áhrif nýju laganna séu enn ekki komin fram og því hafi ekki verið góðar forsendur til að byggja á við mat á afskriftarreikningi síðasta árs. Verulega óvissa væri þar til staðar sem gerði það að verkum að smíða þurfti nýtt reiknilíkan.
Framlag í afskriftarsjóð vegna síðasta árs var 6.049 milljónir króna. Það er margfalt það framlag sem var í sjóðinn árið áður, þegar það nam 938 milljónum króna.
Meðalupphæð afborgana námslána var 266 þúsund krónur á síðasta ári. Hún hækkaði um 46 þúsund krónur á árinu 2021, eða um 21 prósent. Meðalupphæðin hafði lækkað milli áranna 2019 og 2020 um 24 þúsund krónur en hafði verið nokkuð stöðug árin þar á undan.