Oscar Pistorius, sem var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir einu ári síðan, hefur verið látinn laus úr fangelsi. Hann mun ljúka afplánun dóms síns í stofufangelsi á heimili frænda síns. Pistorious, sem er einn frægasti íþróttamaður Suður-Afríku, var dæmdur fyrir að skjóta Reevu Steenkamp, kærustu sína, til bana í febrúar 2014.
Hann hélt því fram frá upphafi að hann hefði talið Steenkamp vera innbrotsþjóf og því hefði hann skotið hana til bana. Hún var inni á baðherbergi við hlið svefnherbergis þeirra og Pistorius skaut fjórum skotum í gegnum hurðina. Þrjú skotanna hæfðu kærustuna og saksóknari hefur því bent á að ásetningur Pistorius hafi verið að drepa hvern þann sem var inni í herberginu, hvort sem hann hafi talið að hann væri að skjóta innbrotsþjóf eður ei. Hann hlaut fimm ára dóm í október í fyrra. Til stóð að sleppa honum á morgun, 20. október, en ákveðið var að láta Pistorious lausan degi fyrr.
Málinu er þó ekki lokið. Áfrýjun ákæruvaldsins verður tekin fyrir 3. nóvember og telur ákæruvaldið dæma hefði átt Pistorius fyrir morð í stað manndráps. Þá íhugar fjölskylda Steenkamp að lögsækja hann.