PLAY tapaði 22,5 milljónir Bandaríkjadala, rúmlega 2,9 milljörðum króna miðað við gengi í lok síðasta árs, á árinu 2021. Alls námu tekjur flugfélagsins á árinu 16,4 milljónum Bandaríkjadala, rúmlega 2,1 milljarði króna. Þorri tapsins kom fram á síðast ársfjórðungi ársins. Þetta kemur fram í ársreikningi PLAY sem var birtur í dag.
Í tilkynningu sem send var út vegna birtingar hans segir að tekjur hafi verið lægri en vonast hefði verið til vegna neikvæðra áhrifa COVID-19 en kostnaður hafi samt verið samkvæmt áætlunum. „Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu var í samræmi við að félagið er enn í uppbyggingarfasa og ekki var gert ráð fyrir hagnaði á fyrsta ári þar sem starfsemin hófst ekki fyrr en á miðju ári.“
Ætla ekki í hlutafjáraukningu en hækkandi olíuverð bítur fast
Stjórnendur PLAY segjast gera ráð fyrir rekstrarhagnaði á síðari hluta ársins 2022, en félagið verður með sex flugvélar í rekstri í sumar, starfsmenn verða um 300 talsins en áfangastaðir verða tuttugu og sjö. Þrátt fyrir það er tiltekið í tilkynningunni að blikur séu á lofti í heimsmálunum vegna innrásar Rússa í Úkraínu en hingað til eru áhrifin á PLAY helst þau að olíuverð hefur farið hækkandi. Fram hefur komið í fjölmiðlum að PLAY er ekki með neina samninga til að verja sig fyrir sveiflum í heimsmarkaðsverði á olíu, en það hefur hækkað gríðarlega það sem af er ári. Það hyggst ekki taka upp olíuvarnir fyrr en meiri fyrirsjáanleiki á markaði næst.
Í tilkynningu PLAY segir að engin áform séu uppi um hlutafjáraukningu þar sem lausafjárstaða félagsins sterk, bókunarstaðan góð og fyrirtækið ber engar vaxtaberandi skuldir. Eigið fé PLAY var um 67 milljónir Bandaríkjadala, 8,7 milljarðar króna, um síðustu áramót.
Hlutabréf lækkað skarpt frá því í haust
PLAY, skráði sig á First North markaðinn í fyrra. Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar voru seldir hlutir fyrir 4,3 milljarða króna. Eftirspurn var áttföld en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna. Útboðsgengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna og 18 krónum á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum króna.
Á fyrsta viðskiptadegi með bréf félagsins eftir skráningu hækkaði virði þeirra um 23 til 37 prósent og dagslokagengið þann dag, 9. júlí í fyrra, var 24,6 krónur á hlut. Í október náði hlutabréfaverðið því að verða 29,2 krónur á hlut. Síðan þá hefur það hríðfallið og var 21,5 króna á hlut í lok dags í dag. Virðið hefur því dregist saman um rúmlega fjórðung frá því í haust. Markaðsvirðið er um 15 milljarðar króna sem er 5,4 milljörðum króna minna en í október.