Bandaríska geimfarið New Horizons mun, klukkan 11:50, fljúga fram hjá Plútó, ystu reikistjörnunni í Sólkerfinu. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar flýgur fram hjá Plútó en það ferðast á 50.000 km hraða á klukkustund. Á þeim hraða kæmumst við frá Reykjavík til Akureyrar á 20 sekúndum.
Geimfarið var sent frá Canaveral-höfða í Flórída fyrir níu og hálfu ári og hefur síðan þá ferðast tæplega fimm milljarða kílómetra í ystu víddir Sólkerfisins. New Horizons mun fljúga í um það bil 12.500 kílómetra hæð yfir yfirborði þessarar minnstu plánetu Sólkerfisins og senda myndir til Jarðar.
Plútó hefur fimm fylgihnetti sem ganga yfir og undir reikistjörnuna og mynda þannig einskonar skotskífu í átt að sólinni. Fylgihnöttur Jarðarinnar, Tunglið, gengur eins og við vitum, umhverfis hnöttinn okkar nokkurnveginn yfir honum miðjum.
New Horizions mun fljúga á milli Plútó og fylgitunglsins Charon, sem er innsta tunglið. Vegna skorts á eldsneyti kemst geimfarið ekki á sporbraut um Plútó og hefur því aðeins eitt tækifæri til að taka myndir og rannsaka yfirborð plánetunnar.
Bein útsending úr stjórnstöð NASA
Jafnvel þó geimfarið fljúgi fram hjá Plútó í dag verður það ekki fyrr en í nótt sem við fáum staðfestingu á því að New Horizons hafi komist klakklaust fram hjá Plútó. Vegna fjarlægðar frá Jörðu tekur það skilaboðin fjóra og hálfan tíma að berast til Jarðar.
Plútó fannst síðust
Árið 1930 þegar bandaríkjamaðurinn Clyde Tombaugh fylgdist með næturhimninum í Arizona með það að markmiði að finna plánetu handan Neptúnusar. Með því að bera saman tvær myndir, teknar með stuttu tímabili, af næturhimninum gat Tombaugh greint misræmi, því á meðan fjarlægar stjörnur virðast fasta á himninum er þar lítill hnöttur sem virðist á ógnar hraða.
Þessi nýuppgvötaða pláneta fékk svo nafnið Plútó 1. maí 1930. Það var tillaga níu ára enskrar stelpu sem lagði til að Plútó, rómverskur guð undirheimanna, fengi að ríkja yst í sólkerfinu. Unga stúlkan Venatia Burney lést árið 2009.
Síðan hefur Plútó verið rannsóknarefni stjörnufræðinga sem með hverju árinu hafa tekið betri og betri myndir af plánetunni. New Horizons hefur þegar tekið þónokkrar myndir af Plútó úr návígi, þá nýjustu birti NASA í dag á Instagram.
Á morgun má svo gera ráð fyrir að fleiri myndir verði birtar af Plútó auk frumtilgáta vísindamanna um hverskonar hnött um er að ræða. Nánar má lesa um ferð New Horizons til Plútó á Stjörnufræðivefnum.