Rúm 53 prósent þátttakenda í skoðanakönnun, sem Fjölmiðlanefnd lét Maskínu framkvæma eftir alþingiskosningarnar í september, sögðust ekki hafa tekið eftir því að „falsfréttum“ eða „röngum upplýsingum“ hefði verið beitt til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna í aðdraganda þeirra.
Aðrir þátttakendur sögðust hafa orðið varir við það, en þó í mismiklum mæli. 11 prósent sögðust hafa séð slíkt efni að minnsta einu sinni á dag. Afar lágt hlutfall þeirra sem tóku þátt í könnuninni taldi þó að rangar eða misvísandi upplýsingar hefðu haft áhrif á þeirra eigin kosningahegðun.
Heil 90 prósent þátttakenda töldu hins vegar að falsfréttir eða upplýsingaóreiða hafi haft einhver áhrif á niðurstöður kosninganna, en einungis rúm 15 prósent sögðust telja áhrifin hafa verið mikil.
Þetta kemur fram í skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda kosninganna, sem gefin var út í dag, en þar er einnig dregið fram að fólk leggur ólíkan skilning í hvað heyrir til falsfrétta eða rangra upplýsinga.
Ljóst er að einhverjir telja „pólitískar staðhæfingar sem þeir voru ósammála til rangra upplýsinga eða falsfrétta“, eins og sjá má af tilvitnunum úr opinni spurningu sem lögð var fyrir þátttakendur í könnuninni.
„Ásmundur Einar Daðason er ekki Guð,“ sagði einn, „Blaðrið í Gunnari Smára,“ sagði annar. „Píratar á Twitter“ voru líka nefndir til sögunnar og sömuleiðis „Konan þarna í Viðreisn,“ samkvæmt samantekt Fjölmiðlanefndar á því sem fólk nefndi sem dæmi um falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninga.
Í skýrslu Fjölmiðlanefndar má annars lesa að kjósendur ríkisstjórnarflokkanna þriggja voru ólíklegastir til að telja hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninga. Hæst var hlutfallið á meðal kjósenda Vinstri grænna, en rúm 70 prósent þeirra sögðust ekki hafa orðið varir við neinar falsfréttir eða rangar upplýsingar.
Á hinum enda skalans hvað þetta varðar voru kjósendur Viðreisnar og Sósíalistaflokksins, en einungis 36 prósent kjósenda Viðreisnar og 37 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins tóku ekki eftir neinum falsfréttum eða röngum upplýsingum sem þeir töldu að haft gæti áhrif á niðurstöður kosninganna.
Þetta hlutfall var svo 41,7 prósent hjá kjósendum Samfylkingar og 43,5 prósent hjá kjósendum Pírata, en kjósendur annarra flokka sögðust að meirihluta ekki hafa tekið eftir neinum falsfréttum eða röngum upplýsingum síðustu 30 dagana fyrir kosningar.
Stuðningsmenn Flokks fólksins, Pírata og Miðflokksins voru hins vegar líklegastir til að segjast hafa tekið eftir falsfréttum eða röngum upplýsingum oft á dag, eða um eða yfir fimmtungur þeirra kjósenda flokkanna sem tóku þátt í könnuninni.
Facebook helsta uppsprettan
Þeir þátttakendur sem á annað borð urðu varir við einhverjar falsfréttir eða rangar upplýsingar sögðust flestir hafa séð þær á Facebook, eða 72,2 prósent. Af hefðbundnum fjölmiðlum sögðust rúm 32 prósent hafa séð falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda alþingiskosninga á ritstýrðum netmiðlum, tæp 27 prósent í sjónvarpi og rúm 26 prósent í ritstýrðum prentmiðlum. Tæp 23 prósent sögðust svo hafa heyrt falsfréttir eða rangar upplýsingar í útvarpinu, rúm 15 prósent á Instagram og tæp 15 prósent á Twitter.
Þátttakendur í könnuninni voru einnig spurðir að því hverjir þeir teldu að bæri ábyrgð á falsfréttunum eða röngu upplýsingunum sem þeir hefðu séð. Rúmur helmingur þeirra sem töldu sig hafa séð falsfréttir eða rangar upplýsingar töldu einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk hafa borið ábyrgð á þeim, en rúm 29 prósent einhvern íslenskan fjölmiðil. Um 25 prósent nefndu svo að ákveðinn stjórnmálamaður bæri ábyrgð á falsfréttinni, eða röngu upplýsingunum.
Stuðningsmenn Miðflokksins skáru sig úr í svörum við þessa spurningu, en þvert á kjósendur annarra flokka taldi hærra hlutfall þeirra að ákveðinn íslenskur fjölmiðill bæri ábyrgð á falsfréttunum eða röngu upplýsingunum sem þeir hefðu séð, fremur en einhver stjórnmálaflokkur.
Þeir sem sögðust hafa kosið Miðflokkinn voru einnig þeir einu sem í einhverjum mæli nefndu að einhver ákveðinn erlendur aðili hefði borið ábyrgð á falsfréttunum eða röngu upplýsingunum sem þeir sáu, eða 16,7 prósent þeirra. Á meðal kjósenda annarra flokka nefndi varla nokkur þátttakandi erlenda aðila, í svari við þessari spurningu.
Kjósendur Vinstri grænna treysta fjölmiðlum best fyrir kosningar
Í könnunni var spurt út í traust til fjölmiðla og hvort fólk treysti þeim til að færa sér réttar upplýsingar og hlutlæga umfjöllun í tengslum við kosningar. Heilt yfir voru rúm 41 prósent þáttakenda sammála því, en rúm 33 prósent voru ósammála.
Traustið til fjölmiðla var mest hjá þeim sem sögðust hafa kosið Vinstri græn, en 60 prósent þeirra sögðust sammála því að fjölmiðlum væru treystandi fyrir því að færa fram réttar upplýsingar og hlutlæga umfjöllun í aðdraganda kosninga.
Stuðningsfólk Viðreisnar var næst líklegast til að vera sammála því að fjölmiðlum væri treystandi fyrir þessu grundvallarhlutverki sínu. Innan við helmingur kjósenda annarra flokka sögðust sammála því að svo væri, en margir þátttakendur svöruðu reyndar „hvorki né“.
Einungis kjósendur Sósíalistaflokksins voru að meirihluta ósammála því að fjölmiðlum væri treystandi fyrir því að færa fram réttar upplýsingar og hlutlæga umfjöllun í tengslum við kosningar. Kjósendur sama flokks voru einnig langmest ósammála þeirri fullyrðingu að fjölmiðlar veittu stjórnmálaflokkum jafnan aðgang að umfjöllun og settu rétt mál á dagskrá í aðdraganda kosninga, en 80 prósent stuðningsfólks Sósíalistaflokksins var ósammála því.
Hátt hlutfall stjórnarandstæðinga var almennt ósammála hinu sama, ef miðað er við stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, eða um 65 prósent kjósenda Miðflokksins, 57 prósent kjósenda Pírata og 51 prósent kjósenda bæði Flokks fólksins og Viðreisnar.