Búið er að færa Landsprent, sem rekur prentsmiðju sem prentar þorra þeirra prentmiðla sem gefnir eru út á Íslandi, út úr Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og stærsta viðskiptavini Landsprents. Það var gert á hluthafafundum sem haldnir voru í bæði Þórsmörk, móðurfélagi Árvakurs sem á nær allt hlutafé í því, og Árvakri 27. september síðastliðinn með framlagningu og samþykkt áætlunar um uppskiptingu Árvakurs. Skiptingin felur í sér að Landsprent er fært úr Árvakri og til móðurfélagsins Þórsmerkur. Í fundargerð stjórnarfundar Þórsmerkur segir að á sama tíma hafi verið samþykkt hlutafjáraukning upp á 400 milljónir króna „sem þegar hefur verið samþykkt á árinu og greidd til félagsins.“
Við skiptinguna lét Árvakur af hendi eignir sem metnar voru á 997 milljónir króna og skuldir upp á 721 milljón króna. Eignin sem færð var yfir er bókfært virði Landsprents. Skuldin sem færist yfir er að uppistöðu skuld Árvakurs við Landsprent, sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum.
Þetta má lesa úr skjölum sem nýverið voru send til fyrirtækjaskráar vegna þessa.
Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina Landsprents sem átti kröfur á tengd félög upp á 730,3 milljónir króna um síðustu áramót. Þær kröfur, sem eru á Árvakur, uxu um 410,2 milljónir króna á tveimur árum, frá byrjun árs 2020 og út síðasta ár. Með því sparaði Árvakur sér greiðslur tímabundið, en stórjók skuldir sínar við félag í sinni eigu.
Skiptingunni, sem færir Landsprent yfir til móðurfélagsins Þórsmerkur, er ætlað að taka á þessari skuldastöðu. Við hana lækka skuldir Árvakurs við tengda aðila um 721 milljón króna og sú skuld færist til Þórsmerkur, nú eiganda Landsprents.
Eftir skiptinguna fara eignir Árvakurs, sem á Morgunblaðið, mbl.is og K100 og tengda miðla, úr tæplega 2,2 milljarði króna í 1,2 milljarð króna og eignir Þórsmerkur hækka að sama skapi um tæpan milljarð króna.
Guðbjörg í stjórn en Ásdís Halla út
Í ár var ný stjórn Þórsmerkur og Árvakurs. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár var sú stjórn skipuð 27. september síðastliðinn, sama dag og ofangreind skipting og hlutafjáraukning var ákveðin. Þar kom meðal annars fram að Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri í háskólar-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, sagði sig úr stjórnunum, en lög banna aukastörf æðstu embættismanna og ráðherra.
Í hennar stað settist Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja, í stjórnirnar. Sigurbjörn Magnússon, faðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra í ráðuneytinu sem Ásdís Halla starfar í, er áfram sem áður stjórnarformaður félaganna tveggja.
Stærsti eigandinn fyrir síðustu hlutafjáraukningu voru Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt átti sá hópur 25,5 prósent hlut.
Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut.
Legalis, félag sem Sigurbjörn stjórnarformaður veitir forstöðu á 13,4 prósent.. Félagið Í fjárfestingar ehf., í eigu Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja, á 8,72 prósent. Auk þess á Lýsi beint 2,96 prósent hlut.
Mikið tap og fallandi lestur
Kjarninn greindi frá því í mars að hlutafé í Morgunblaðssamstæðunni hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
400 milljóna króna hlutafjáraukningin sem samþykkt var í lok september bætist því við þá tölu. Alls hefur nýtt hlutafé verið sett inn í samsteypuna fjórum sinnum frá árinu 2019, en samanlagt umfang þess er einn milljarður króna.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals vel yfir tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 17,3 prósent og hefur einungis einu sinni mælst lægri, í ágúst 2022. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist átta prósent.
Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur. Mbl.is hefur þó enn vinninginn þegar kemur að fjölda flettinga en miðlarnir tveir hafa undanfarið verið með afar svipaðan fjölda innlita á viku.