Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í bandarísku forsetakosningunum á næsta ári, segist ekki tilbúinn að styðja aðra frambjóðendur flokksins hljóti þeir útnefninguna til að bjóða sig fram. Trump sagði líklegt að hann myndi bjóða sig fram til forseta hvernig sem forkjör Repúblikanaflokksins færi. Þetta kom fram í kappræðum tíu frambjóðenda repúblikanaflokksins sem fram fóru í Cleveland í nótt. Áhorfendur í salnum brugðust við með því að púa á Trump.
Þátttakendurnir tíu í kappræðunum voru valdir af Fox sjónvarpsstöðinni eftir því hversu mikið fylgi þeir voru að mælast með í aðdraganda þeirra.
Þátttakendur í kappræðunum voru valdir af Fox sjónvarpsstöðinni eftir því hversu mikið fylgi þeir voru að mælast með í aðdraganda þeirra. Samkvæmt frétt BBC af kappræðunum náði hinn mjög svo umdeildi Trump að fanga mestu athyglina. Hann neitaði til að mynda að draga til baka ýmis móðgandi og lítillækkandi ummæli sem hann hefur látið falla um konur. Þegar Trump var spurður út í ummæli sem að margra mati fela í sér kvenhatur, en hann hefur meðal annars kallað konur sem honum líkar ekki við feit svín, hunda, sóða og ógeðsleg dýr, sagði hann að ummælin hefðu einungis átt við um leik- og sjónvarpskonuna Rosie O´Donnell og að pólitískur réttrúnaður væri eitt helsta vandamál Bandaríkjanna. "Ég hef ekki tíma fyrir pólitískan réttrúnað," sagði Trump.
Jeb Bush, sá frambjóðandi sem mælist oftast næst Trump í fylgi um þessar mundir, sagði að Trump stuðlaði að sundurlyndi með ummælum sínum um innflytjendur.