Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur viðurkennt í fyrsta sinn að innlimun Krímskaga í Rússland hafi verið skipulögð fyrirfram. Upphaflega neituðu rússnesk stjórnvöld allri aðild að uppreisninni á Krímskaga.
Pútín ræðir um málið í nýrri heimildarmynd sem verður sýnd í rússneska ríkissjónvarpinu, á Rossiya-1, en stikla úr myndinni var sýnd í gær. Pútín segir þar frá því að hann hafi hitt embættismenn í febrúar til að ræða hvernig mætti bjarga fráfarandi forseta Úkraínu, Viktori Janúkovitsj, frá landinu. Hann flúði land eftir margra mánaða mótmæli í Kíev, höfuðborg Úkraínu.
Eftir þann fund segist Pútín hafa sagt við yfirmenn hersins og varnarmálaráðuneytisins að Rússum bæri skylda til að hefja vinnu við að skila Krímskaga aftur til Rússlands. Hann segir að fundurinn hafi átt sér stað 23. febrúar, tæpum mánuði áður en mjög umdeild atkvæðagreiðsla um innlimun Krímskaga í Rússland var haldin. Rússar hafa haldið því fram að innlimunin hafi aðeins tekið mið af þessari atkvæðagreiðslu.
Það var hins vegar ekki fyrr en 27. febrúar sem vopnaðir menn tóku yfir þinghúsið í Simferopol, höfuðborg Krím. Þá tók við atburðarásin sem lauk með atkvæðagreiðslu meðal íbúanna, en hún var ekki viðurkennd alþjóðlega. Krím varð svo formlega hluti af Rússlandi þann 18. mars í fyrra.
Pútín neitaði því upphaflega að hafa sent hermenn til Krímskaga en viðurkenndi það síðar.