Vladímir Pútín, forseti Rússlands, segir rússneska auðkýfinga, sem eiga miklar peningalegar eignir utan Rússlands, þurfa að koma aftur með féð heim til Rússlands. Landið sé í vanda statt efnahagslega og þurfi á peningunum að halda. Gaf hann til kynna að annars yrðu sjóðir þeirra erlendis frystir, en þetta kom fram á fundi í Moskvu í dag.
Pútín skírskotaði til refsiaðgerða Bandaríkjanna og ríkja Evrópusambandsins (ESB) gegn Rússlandi, vegna hernaðaraðgerða Rússlands í Úkraínu, og sagði að auðkýfingarnir gætu lítið notað fjármagnið ef þeir kæm ekki heim með það.
Peningaflótti mikill hefur verið frá Rússlandi og fóru meira en 1.500 milljarða Bandaríkjadala, fá landinu í fyrra. Í desember sl. bauð Pútín auðmönnum friðhelgi sem fól í sér að þeir sem sneru með peninga til baka til Rússlands þyrftu engum spurningum að svara gagnvart skattinum eða öðrum yfirvöldum.
Rússland hefur átt í miklum efnahagsvanda eftir að verð á olíu tók að lækka. Í júlí í fyrra var það 110 Bandaríkjadalir á tunnuna, en í dag er það um 60 Bandaríkjadalir. Seðlabanki Rússlands spáir því að efnahagur Rússlands falli saman um 3,5 til fjögur prósent á þessu ári.