Það vakti mikla athygli í upphafi mars mánaðar þegar Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lækkaði laun allra ríkisstarfsmanna landsins. Til að sýna gott fordæmi lækkaði Pútín sín eigin laun, og laun Dmitri Medvedev forsætisráðherra, um tíu prósent.
Launalækkunin skiptir Pútín reyndar minna máli en flesta ríkisstarfsmennina, enda Pútín talin vera á meðal auðugustu manna heims (auður hans, falin og sýnilegur, hefur verið metin á allt að 27.600 milljarða króna,sem gerir hann að langríkasta manni heims) auk þess sem hann hefur látið hafa eftir sér að hann viti ekkert hvað hann sé með í laun. Á blaðamannafundi í desember síðastliðnum sagði hann: „þeir láta mig bara fá launin, og ég legg þau inn á reikninginn minn“.
Með minna en Ólafur Ragnar en meira en Sigmundur Davíð
Regluleg laun Pútín, um 18,8 milljónir króna á ári, eru hins vegar bara brotabrot af því sem margir kollegar hans þéna. Samkvæmt samantekt Business Insider eru regluleg laun Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til dæmis um 55,2 milljónir króna á ári. Meira að segja Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands er með hærri laun en Pútín, en hann fer árlega heim með tæpar 24 milljónir króna. Pútín nær þó að vera með aðeins hærri laun en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem þénar um 14,3 milljónir króna á ári.
Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr er langlaunahæsti þjóðarleiðtoginn á listanum.
Sá sem ber af öðrum er hins vegar Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr. Laun hans eru um 235 milljónir króna á ári, eða rúmlega tólf sinnum hærri en laun Pútíns. Loong er með hærri laun en leiðtogar Indlands, Brasiliu, Ítalíum Rússlands, Frakkalands, Tyrklands, Japan,Bretlands, Suður-Afríku og Þýskalands eru með til samans. Vert er að taka framað Singapúr er líka dýrasta borg heims samkvæmt könnun Economist.
Sá sem rekur lestina á lista Business Insider er Narenda Mondi, forsætisráðherra Indlands, með einungis 4,2 milljónir króna á ári, eða um 350 þúsund krónur á mánuði.