Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að embætti sem fara með rannsókn og saksókn sakamála fái ekki auknar fjárveitingar til að sinna rannsókn tiltekins sakamáls. Það grundvallist á því að íslenskt sakamálaréttarfar byggi á „því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi að undanskildu þröngu hlutverki ráðuneytisins í alþjóðlegri sakamálasamvinnu.“ Fjárveitingar til stofnana séu unnar í gegnum fjármálaáætlun og fjárlög hverju sinni í samræmi við lög um opinber fjármál.
Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins og fyrrverandi aðstoðarsaksóknara við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, um rannsókn héraðssaksóknara á meintu peningaþvætti og mútubrotum Samherja.
Þrátt fyrir þessi svör liggur fyrir að ríkisstjórn Íslands tók sértækt fyrir mál Samherja á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var 19. nóvember 2019 og ákvað þar huga sérstaklega að fjármögnun á rannsókn héraðssaksóknara á Samherjamálinu.
Hugað sérstaklega að rannsókn „á Samherjamálinu“
Á þeim fundi voru samþykktar sjö tölusettar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heild til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar þess að Samherjamálið var opinberað í Kveik og Stundinni viku áður, 12. nóvember.
Sjöunda aðgerðin sneri svo að því að ríkisstjórnin hefði fjallað um Samherjamálið með tilliti til alþjóðasamskipta og sagt að utanríkisráðuneytið væri að fylgjast „með umfjöllun erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis.“
Fengu viðbótarfé í kjölfar ríkisstjórnarfundarins
Í fyrirspurn sinni óskaði Eyjólfur eftir því að fá upplýsingar um hversu lengi Samherjamálið hefði verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og hvort héraðssaksóknari hefði óskað eftir auknum fjármunum eða mannafla til að sinna rannsókninni.
Tveimur dögum eftir ofangreindan ríkisstjórnarfund, 21. nóvember 2019, sendi Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari minnisblað til dómsmálaráðherra þar sem hann lagði til að starfsmönnum embættisins yrði fjölgað. Þótt Samherjamálið sé ekki sérstaklega nefnt í minnisblaðinu kemur þar fram að þáverandi starfsmannafjöldi dugi ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hafi á hendi.
Embætti héraðssaksóknar, Skatturinn og skattrannsóknarstjóri fengu svo 200 milljóna króna aukafjárveitingu á árinu 2020.
Taldi sér ekki fært að svara neinum spurningum efnislega
Eyjólfur fór einnig fram á að fá upplýsingar um hvort skýrslutökum og gagnaöflun í tengslum við rannsókn málsins væri lokið, hversu margir hefðu verið kallaðir til skýrslutöku, hvort málið væri komið í ákærumeðferð og hvenær mætti vænta þess að rannsókn héraðssaksóknara myndi ljúka?
Dómsmálaráðherra taldi sér ekki fært að svara neinum þessarra spurninga.
Kjarninn hefur greint frá því að á Íslandi eru átta manns hið minnsta með réttarstöðu sakborning við rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintu peningaþvætti, mútugreiðslum og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, en allir hinir annað hvort starfa fyrir samstæðuna eða hafa gert það. Kjarninn greindi frá því í október að rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hefði færst yfir til embættis héraðssaksóknara skömmu áður.