Ráðherrar, alþingismenn, forseti Íslands, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórnar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar ásamt ríkissáttasemjara fengu alls 105 milljónir króna í ofgreidd laun frá árinu 2019. Þetta kemur fram á vef Fjársýslu ríkisins. Þar segir að 260 einstaklingar, þar af 215 sem enn eru í starfi, verði krafðir um endurgreiðslu á ofgreiðslunni.
Þessi mistök eiga rætur sínar að rekja aftur til þess þegar Kjararáð var lagt niður. Það ráð ákvað í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra gríðarlega. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Eftir mikla samfélagslega gagnrýni var samþykkt á Alþingi í sumarið 2018 að leggja kjararáð niður. Þess í stað átti að hækka laun í æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa í takti við þróun launavísitölu. Lög þess efnis voru samþykkt 2019 og launin hafa verið greidd samkvæmt þeim síðan þá.
Kjarninn greindi frá því í ágúst í fyrra að á fimm árum hefðu grunnlaun þingmanna hækkað um rúmlega 80 prósent, í 1.285.411 krónur á mánuði.
Til viðbótar við ofangreint geta þingmenn fengið ýmiskonar viðbótargreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til vegna starfsins, eða aukastarfa á borð við nefndarformennsku.
Biðst afsökunar og rukkar upphæðina til baka
Í tilkynningu á vef Fjársýslu ríkisins er greint frá þeim mistökum sem gerð hafa verið við útreikningi launa þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins, með þeim afleiðingum 260 manns hafi fengið verulega ofgreidd laun. Samanlögð upphæð þeirra er 105 milljónir króna.
Fjársýsla ríkisins uppfærir krónutölufjárhæð launa þessa hóps ár hvert til samræmis við tölur Hagstofunnar í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins og launin eiga að taka breytingum til hækkunar 1. júlí. „Í ljós hefur komið að allt frá gildistöku laganna hefur viðmið við framkvæmdina verið launavísitala ríkisstarfsmanna, en ekki það viðmið sem tilgreint er í lögunum, þ.e. meðaltalsbreyting reglulegra launa ríkisstarfsmanna milli ára. Við framkvæmd hækkunar launa þessa hóps hefur því ekki verið notast við lögbundið viðmið frá gildistöku laganna og laun hækkað meira en þau áttu að gera. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið ákvörðun um leiðréttingu vegna þessa og að farið verði fram á að viðkomandi endurgreiði ofgreidd laun frá gildistöku laganna.“
Heildarfjöldi einstaklinga sem hafa fengið laun sem leiðrétt verða er um 260 og hafa þeir allir fengið bréf um málið. Greiðslan verður ýmist dregin af launum eða kröfur stofnaðar í jöfnum hlutum í tólf mánuði.
Í tilkynningunni segir: „Eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á því óhagræði sem þetta kann að hafa í för með sér og mun Fjársýslan gera það sem hægt er til að aðstoða hvern og einn.“