Dómsmálaráðherra eða fulltrúar ráðuneytis hans áttu enga aðkomu að því að hópi fólks sem hér leitaði alþjóðlegrar verndar, var vísað úr landi í byrjun nóvember. Þetta kemur fram í svörum frá Útlendingastofnun, stoðdeild ríkislögreglustjóra og ráðuneytinu sjálfu.
Þann 3. nóvember var fimmtán manneskjum í leit að vernd vísað frá landinu og flogið í fylgd 41 lögreglumanns, í leiguflugvél á vegum stjórnvalda, frá Keflavíkurflugvelli til Aþenu í Grikklandi. Hópurinn samanstóð af ellefu körlum og fjórum konum, fólki sem flúði upprunalega Afganistan, Írak, Palestínu eða Sýrland.
Ýmislegt hefur verið gagnrýnt við þessa aðgerð, m.a. tímasetningin – að margir í hópnum hefðu dvalið hér á landi lengi og biðu niðurstöðu kærunefndar útlendingamála við beiðnum um endurupptöku mála sinna. Þá var ungur, fatlaður karlmaður frá Írak, sem notast við hjólastól, sendur úr landi en hann beið þess að kærumál hans gegn íslenska ríkinu yrði tekið fyrir í héraðsdómi. Fólkið var að sumt hvert handtekið og sett í gæsluvarðhald, haldið í fjötrum í fluginu og segist ekki hafa fengið að taka með sér persónulegar eigur sínar. Þá hefur það einnig verið gagnrýnt að fólk sé vísað aftur til Grikklands yfir höfuð, þar sem sýnt sé að aðstæður eru fólki á flótta sérstaklega erfiðar.
Á svipuðum tíma og frávísun fólksins var framkvæmd lagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fram frumvarp að breytingu á lögum um útlendinga og lýsti því í viðtali að nauðsynlegt væri að vera með lokaðar búðir fyrir hælisleitendur sem kæmu til landsins en væri synjað um hæli. Þá sagðist honum hugnast vel að koma á fót móttökubúðum fyrir flóttafólk. „Þá fer fólk á dvalarstað á ákveðnum stað, þar er takmarkað aðgengi, takmarkað ferðafrelsi, á meðan að fólk er að bíða frávísunar og brottvísunar úr landi,“ sagði Jón við RÚV um miðjan október.
Aðkoma eða tilviljun?
Um tveimur vikum síðar var hópi flóttamanna, sem hefði fallið undir þá skilgreiningu Jóns að eiga að vera í lokuðum búðum, vísað frá landinu. Og spurningar vöknuðu um hvort að ráðherrann hefði mögulega beitt sér með einhverjum hætti fyrir því að fólkið var sent úr landi á einmitt þessum tímapunkti.
Svo er ekki, miðað við þau svör sem Kjarninn fékk við fyrirspurnum sínum um málið sem bent var til Útlendingastofnunar, stoðdeildar ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytisins. Það var lögreglan sem ákvað tímasetninguna í samræmi við verkbeiðnir sem Útlendingastofnun hafði komið til hennar.
„Dómsmálaráðuneytið hefur ekki spurst fyrir um þessi mál hjá Útlendingastofnun,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar í svari við fyrirspurn Kjarnans. Ráðuneytið fái reglulega fá almennar tölfræðilegar upplýsingar frá Útlendingastofnum meðal annars um fjölda mála í vinnslu og fjölda afgreiddra mála en þær varði ekki stöðu einstakra mála. „Að frávísunin skyldi hafa verið framkvæmd á þessum tímapunkti var ákvörðun stoðdeildar. Útlendingastofnun hefur engar upplýsingar um að ráðuneytið hafi haft aðkomu að þeirri ákvörðun.“
Þetta staðfestir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra. „Ráðuneyti og dómsmálaráðherra komu ekki að ákvörðun tímasetningar á fylgd stoðdeildar,“ segir hann. „Slík aðkoma stjórnvalda er ekki hluti af verklagi í skipulagi stoðdeildar á undirbúningi og tímasetningum á fylgdum.“
Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, segir í sínu svari að ráðuneyti dómsmála „hafi ekki afskipti af stjórnsýslu einstakra mála“, hvorki hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða stoðdeild ríkislögreglustjóra.
„Brottflutningur á vegum stoðdeildar er verkefni sem er sífellt í gangi með einum eða öðrum hætti,“ segir hann spurður um hvenær ráðuneytið hefði fengið upplýsingar um aðgerðirnar. „Embættismenn í ráðuneytinu höfðu veður af þessum brottflutningi þegar hann var í undirbúningi einhverjum dögum áður.“
Um leið og Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála taka endanlega ákvörðun um að hafna umsókn um alþjóðlega vernd, og þar með gera viðkomandi skylt að yfirgefa landið, þá býr Útlendingastofnun til verkbeiðni til stoðdeildar ríkislögreglustjóra, segir Gunnar Hörður um ferlið sem lögreglan vinni eftir. „Þá þegar tekur embættið á sig þá skyldu að fylgja viðkomandi úr landi,“ segir hann. Verkbeiðnin snúi ekki að framkvæmd fylgda og tímasetningum heldur að ákvörðuninni um að viðkomandi skuli yfirgefa landið.
„Stoðdeild leitast við að einstaklingar á verkbeiðnalista yfirgefi landið sjálf án lögreglufylgdar en hefur svo undirbúning á lögreglufylgd, með öflun gildra ferðaskilríkja viðkomandi ef við á og samþykkis móttökuríkis til að mynda, ef að viðkomandi vill ekki yfirgefa landið,“ segir hann. „Lögreglufylgd úr landi er íþyngjandi aðgerð og síðasta úrræði sem stoðdeild ríkislögreglustjóra beitir þegar ljóst er aðrar leiðir virka ekki til þess að framkvæma vilja stjórnvalda um að viðkomandi skuli yfirgefa landið.“
Undirbúningur frávísananna sem framkvæmdar voru í byrjun nóvember hafi staðið yfir í nokkrar vikur. „Stoðdeild óskaði eftir að verkbeiðnalisti yrði yfirfarinn af Útlendingastofnun áður en kom að framkvæmd fylgdarinnar, slík yfirferð er hluti af verklagi stoðdeildar og Útlendingastofnunar, og er þar horft til þess hvort staða viðkomandi á Íslandi og forsendur til að vera á landinu hafi breyst áður en viðkomandi er fylgt úr landi.“
Höfðu sum dvalið hér frá árinu 2020
Öllum þeim sem vísað var frá landinu 3. nóvember hafði verið veitt vernd í Grikklandi áður en þau sóttu um vernd á Íslandi. Sjö þeirra sóttu um vernd hér á landi árið 2020, fjögur árið 2021 og fjögur árið 2022. „Öllum var synjað um efnislega meðferð á grundvelli þess að njóta þegar virkrar verndar í öðru ríki, að undangengnu mati á einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra og aðstæðum í Grikklandi,“ segir Þórhildur hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd útlendingamála hafi svo staðfest ákvarðanir Útlendingastofnunar í öllum tilvikum.
Meðalmálsmeðferðartími í þessum 15 málum hjá Útlendingastofnun voru tæpir fjórir mánuðir. Meðalmálsmeðferðartími hjá kærunefnd útlendingamál voru tæpir þrír mánuðir. „Að jafnaði voru einstaklingarnir fimmtán því búnir að fá endanlega niðurstöðu á stjórnsýslustigi, um að þeir fengju ekki efnislega meðferð og bæri að yfirgefa landið, sjö mánuðum frá umsókn,“ segir Þórhildur. Sá sem beið skemmst fékk endanlega niðurstöðu á báðum stjórnsýslustigum fjórum mánuðum frá umsókn og sá sem beið lengst fékk endanlega niðurstöðu 10 mánuðum frá umsókn.
Af þessum fimmtán manneskjum óskuðu ellefu eftir því við kærunefnd útlendingamála að hún frestaði réttaráhrifum úrskurða sinna til að þeir gætu verið staddir á landinu á meðan þeir færu með mál sín fyrir dómstóla. Nefndin hafnaði öllum slíkum beiðnum.
Málunum lokið en ekki hægt að frávísa
Eftir að endanlegar niðurstöður lágu fyrir í málum fólksins sendi Útlendingastofnun verkbeiðnir til stoðdeildar ríkislögreglustjóra um að hún framkvæmdi ákvarðanir stjórnvalda „með því að fylgja fólkinu til baka til Grikklands,“ segir Þórhildur. Þegar til aðgerðanna kom voru yngstu verkbeiðnirnar innan við eins mánaðar gamlar en sú elsta var send stoðdeild fyrir 20 mánuðum.
Sú töf á frávísun skýrist fyrst og fremst af því að mánuðum saman gátu stjórnvöld ekki sent fólk til Grikklands vegna heimsfaraldursins.
Átta manns úr hópnum höfðu lagt fram beiðnir um endurupptöku máls síns til kærunefndar útlendingamála. Nefndin hefur að sögn Þórhildar þegar hafnað hluta beiðnanna en nokkrar þeirra eru enn í vinnslu. „Beiðni um endurupptöku frestar ekki réttaráhrifum gildandi niðurstöðu og því hafa slíkar beiðnir ekki áhrif á skyldu einstaklinga, sem ekki hafa heimild til dvalar á landinu, til að yfirgefa landið.“
Hún ítrekar að það sé stoðdeild ríkislögreglustjóra sem beri ábyrgð á framkvæmd frávísana. „Á meðan verkbeiðnir eru til staðar er það hlutverk stoðdeildar að hafa uppi á þeim einstaklingum sem þar eiga undir og tryggja að þeir yfirgefi landið, með eða án fylgdar.“