Velferðarráðuneytið segir að grunnbætur verði hækkaðar verulega með frumvarpi um húsnæðisbótakerfi í stað húsaleigubóta, og frítekjumark hækki sömuleiðis. Þetta séu mikilvægar forsendur að baki útreikninga á húsnæðisbótum, en þeim hafi verið sleppt í umfjöllun fjölmiðla um frumvarpið. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins.
Veigamiklir gallar á frumvarpinu
RÚV greindi frá því í kvöldfréttum í gær að samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið munu breytingarnar hlutfallslega hagnast tekjuháum mest, þveröfugt við markmið frumvarpsins. Í hádegisfréttum í dag kemur fram að fjármálaráðuneytið telji veigamikla galla á frumvarpi Eyglóar Harðardóttur um húsnæðisbótakerfi. Meðal annars fylgi ekki útreikningur á því hver munurinn sé á vaxtabótakerfinu og núgildandi húsaleigubótakerfi.
Fjármálaráðuneytið segir að það sé líka galli að engin greining fylgi frumvarpinu á áhrifum á þá sem nú þegar fá húsaleigubætur og því hafi fjármálaráðuneytið átt erfitt með að meta áhrifin.
Samkvæmt frumvarpi um húsnæðisbætur tekur ríkið yfir framkvæmd og fjármögnun á almennum húsaleigubótum, sem nú eru á forræði sveitarfélaga, en sveitarfélög myndu áfram sjá um sérstakar húsaleigubætur. Eins og fram kom í fréttum í gær telur fjármálaráðuneytið að það auki flækjustig. Ríkið greiðir nú þegar 4,5 milljarða á ári til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna vegna húsaleigubótakerfisins. Fjármálaráðuneytið segir að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga, eða gera breytingar á viðbótargreiðslum ríkisins til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Frá svona stórum fjárhagslegum atriðum verði að ganga áður en frumvarpið er lagt fram og afgreitt á þingi.
Fjölgun leigjenda mest meðal tekjulágra
Velferðarráðuneytið segir í tilkynningu sinni í dag að þörfin fyrir aukinn húsnæðisstuðning við leigjendur sé augljós og nýju húsnæðisbótakerfi sé ætlað að mæta breyttum veruleika sem orðið hefur til undanfarin ár. Leigjendum hafi fjölgað og byrði húsnæðiskostnaðar hjá þeim hafi þyngst. Fjölgun leigjenda sé mest meðal hinna tekjulægstu, og með hækkun á grunnbótum sé stuðningur við þá aukinn um leið og reynt sé að koma til móts við stærri hóp leigjenda. Markmiðið sé að jafna opinberan húsnæðisstuðning og gera fólki kleift að velja ólík búsetuform.