Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið telur rétt að bíða með að svara því hvort Árni Sigfússon, formaður stjórnar Orkusjóðs, hafi verið vanhæfur til að taka ákvarðanir um styrki til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sökum vensla. Ráðuneytið staðfestir að kvörtun vegna málsins hafi borist og að það sé í formlegri skoðun í ráðuneytinu. Réttast sé hins vegar að bíða eftir formlegri niðurstöðu þeirrar skoðunar áður en nokkuð sé fullyrt af hálfu ráðuneytisins um hæfi eða vanhæfi Árna. Annars gæti ráðuneytið verið vanhæft til að fjalla um kvörtunina.
Fréttablaðið greindi frá því í gærmorgun að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði fengið samtals 4,6 milljónir króna í styrkveitingu frá Orkusjóði í ár. Formaður nefndar sem gerir tillögu um styrkveitingar úr Orkusjóði er Árni Sigfússon en bróðir hans, Þorsteinn Ingi Sigfússon, er forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar.
Einn umsækjendanna um styrk í Orkusjóð, Valorka, hefur kvartað til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna styrkveitinga til Nýsköpunarmiðstöðvar og telur að aðkoma Árna að þeim sé í andstöðu við stjórnsýslulög vegna vensla hans við Þorstein. Í öðrum kafla þeirra segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“.
Um fjórðungur allra styrka sem Orkusjóður deildi út í ár fór til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem er stofnun á fjárlögum.
Segja alla mega sækja um, líka stofnanir
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu vegna málsins í gærkvöldi.
Þar sagði að engin takmörk væru á því hverjir mættu sækja í Orkusjóð önnur en þau að Orkustofnun sé það óheimilt þar sem hún annast rekstur sjóðsins. "Fjölmörg dæmi eru um að stofnanir og háskólar hafi fengið styrki úr sjóðnum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er meðal þeirra og hlaut m.a. styrk úr sjóðnum árið 2012. Stjórn Orkusjóðs gerir tillögu um styrkveitingar til ráðherra og byggir sú ráðgjöf á faglegu mati Orkustofnunar á einstökum verkefnum. Umrædd verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar voru á meðal þeirra verkefna sem fengu jákvæðasta umsögn."
Í tilkynningunni var einnig tiltekið að fyrirtækið Valorka hefði fengið ýmsa opinbera styrki á undanförnum árum. Alls nemi þeir 51,7 milljón króna frá árinu 2008.
Ný nefnd skipuð í byrjun árs
Orkusjóður er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Yfirumsjón og ábyrgð með sjóðnum er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Í desember í fyrra samþykkti Alþingi að gera breytingar á lögum um Orkusjóð. Í þeim breytingum fólst meðal annars að Orkuráð var lagt niður en í stað þess á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipta þriggja manna ráðgjafanefnd til fjögurra ára sem hefur það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
Lagabreytingin tók gildi 1. janúar 2015 og í byrjun árs skipaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þrjá einstaklinga í ráðgjafanefndina. Þeir eru Árni Sigfússon, Franz Viðar Árnason og Halla Hrund Logadóttir.
Árni var auk þess skipaður formaður nefndarinnar.