„Við höfum fengið góða áminningu um að við erum tengd umheiminum,“ segir Johnny Hordal, framkvæmdastjóri orkufyrirtækisins Salten sem er í eigu nokkurra sveitarfélaga í Mið- og Norður-Noregi. Þessi orð lét hann falla í morgun eftir að methækkanir urðu á raforkuverði á einmitt þessu svæði landsins. Orkuverðið hefur ekki verið hærra frá því árið 2010.
Noregi er skipt upp í verðlagssvæði þegar kemur að raforku. Á nyrsta svæðinu hækkaði verðið um hvorki meira né minna en 341 prósent í dag, segir í frétt NRK um málið. Meðalverð á kílóvattstund (kWst) fór þá í 212 norska aura, rúmlega 30 íslenskar krónur. Það er venjulega á bilinu 20-50 aurar. Á morgun er gert ráð fyrir að meðalverðið hækki í 244 aura eða í tæplega 35 íslenskar krónur.
Hækkanirnar nú eiga sér ýmsar skýringar en kólnandi veður á þar m.a. hlut að máli. Eftirspurnin eykst og verðið hækkar. „Þá er vindurinn hættur að blása,“ sagði Horsdal. Háþrýstisvæði liggur sem mara yfir norðurhluta Noregs og gæti gert það í nokkrar vikur í viðbót. Og á meðan framleiða vindorkuverin lítið rafmagn. Samkvæmt spá Nord Pool, raforkumarkaðs Norðurlandanna, mun hámarksverð í Noregi verða 5 norskrar krónur, 71,44 íslenskar, á kílóvattstund milli kl. 17 og 18 í dag en þá er eftirspurnin langmest.
Raforkuverð syðst í Noregi hefur verið óvenju hátt síðustu vikur og mánuði vegna þess að sá hluti orkukerfisins er tengdur við norðurhluta Evrópu. Íbúar í Norður-Noregi hafa greitt lægra orkuverð en nú gætu þeir þurft að róta í buddunni eftir svipuðum fjölda króna og landar þeirra suður frá. „Það eru dýrar vikur fram undan,“ segir Horsdal við NRK.
En um leið og vetrarvindar fara að blása mun verðið lækka, segir hann.
Norðurálssamningur tengdur Nord Pool
Annar raforkusamningur Landsvirkjunar við Norðurál á Grundartanga hefur frá árinu 2019 verið tengdur við Nord Pool í stað álverðs. Með þessari tengingu fær Landsvirkjun sambærilegt raforkuverð og önnur orkufyrirtæki á Norðurlöndum.
Á síðasta ári var gerður viðauki við þennan samning Norðuráls og Landsvirkjunar og samið um að árið 2024 taki verðtenging við Nord Pool enda og samningurinn verði á föstu verði eftir það. Nú í september var svo gerður enn einn viðauki við samninginn þar sem dregið var úr verðtengingu við Nord Pool að hluta til í stað fasts verðs. Einnig var bætt við álverðstengingu á fast verð síðar á samningstímanum.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd hér að ofan, sem fengin er af vef Norðuráls, hefur raforkuverð sveiflast mjög frá því að tenging var gerð við Nord Pool árið 2019.