Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR er þessa dagana að ræða við forystufólk í aðildarfélögum Alþýðusambandsins og kanna hvort hann hafi stuðning þeirra til þess að leiða sambandið og ákveðnar breytingar innan þess. Hann segir að ákvörðun sín um framboð til forseta velti á viðbrögðunum, og hyggst segja af eða á um framboð á fimmtudaginn.
„Ef það er breiður vilji innan aðildarfélaganna sem nær þá út fyrir þau félög sem hafa verið dálítið þétt saman; Grindavík, Akranes, Eflingu, VR, LÍV og fleiri, og ef að viljinn til breytinga nær til dæmis inn í iðnaðarmannasamfélagið og raunverulegur vilji er til að rífa þetta upp og gera þetta að því afli sem þetta apparat á að vera, þá er það mjög spennandi verkefni að taka að sér að leiða,“ segir Ragnar Þór í samtali við Kjarnann.
Hann ræddi þessi mál einnig í viðtali við Gunnar Smára Egilsson í umræðuþættinum Rauða borðinu, sem birtist í gær.
„Ef fólk er virkilega á því að efla þetta, laga það sem þarf að laga, efla kjarnastarfsemi Alþýðusambandsins, þá er þetta verkefni sem ég hef mikinn áhuga á, en ef ekki nær það bara ekkert lengra,“ segir Ragnar Þór, sem segist ekki ætla að dvelja lengi við það að taka ákvörðun sína.
Hann segir að ef svo fari að hann fái ekki þann breiða stuðning sem hann óskar sér innan aðildarsamtakanna hafi hann „kannski takmarkaðan áhuga á að eyða meiri kröftum í Alþýðusambandið“ og kjósi þá heldur að halda áfram því starfi sem unnið er á vettvangi VR og Landssamtaka verslunarmanna.
Í samtali sínu við Gunnar Smára í gær sagði Ragnar Þór að það væri raunhæfur möguleiki að VR myndi segja skilið við Alþýðusambandið og sagði hann að ef til vill væri þeim 175 milljónum króna sem renna frá verslunarfólki í sjóði ASÍ á ári betur varið í að styrkja starfsemi VR.
Ragnar Þór segir við Kjarnann að hann telji Alþýðusambandið hafa verið með „óskýrt umboð“, hinn almenni félagsmaður hafi verið ósáttur með Alþýðusambandið og stefnu þess.
„Ef þú hefur ekki fólkið með þér hefur þú ekki sterkt umboð og samningsstaðan er eftir því,“ segir Ragnar Þór og bætir því við að sá mikli klofningur sem verið hafi innan aðildarfélaga ASÍ hafi takmarkað umboð og styrk ASÍ.
„Það þarf eitthvað verulega mikið að breytast. Þetta snýst ekki um neina titla eða stóla, þetta snýst um hvort Alþýðusambandið geti verið þetta afl sem það þarf að vera, eða hvort maður á eyða orku sinni í eitthvað annað,“ segir Ragnar Þór.
Ekkert framboð komið fram
Enginn hefur enn tilkynnt um framboð til forseta ASÍ en nokkrir verkalýðsleiðtogar hafa þegar útilokað það. Þeirra á meðal er starfandi forseti ASÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins, en hann gaf það út í upphafi síðustu viku að hann myndi ekki sækjast eftir embættinu.
Áður höfðu þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA útilokað framboð til forseta ASÍ, en eftirmaður Drífu Snædal verður kjörinn þingi sambandsins sem fram fer í október.