Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR stéttarfélags, segir undirbúning stjórnmálamanna og atvinnurekenda vera hafinn fyrir komandi kjarasamningsviðræður. „Harmakórinn óvinsæli er við æfingar þessa dagana,“ segir Ragnar Þór í aðsendri grein sem birt var í Fréttablaðinu í dag. Hann segir kórfélaga vera peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, forstjóra stórfyrirtækja, fjármagnseigendur og „margt þekktasta stjórnmála- og embættisfólk landsins. Kórstjórar eru fjármálaráðherra og seðlabankastjóri.“
Hann segir að söngur kórsins eigi „eftir að versna til mikilla muna“ þegar nær dregur kjarasamningsviðræðum. „Harmakórinn undirbýr stórtónleika en háannatími, eins konar jólavertíð, hans er þegar kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir. Heyrast munu lög eins og: Græðgi ykkar er skaðleg hagkerfinu, Hófsemi og ábyrgð, Ábyrgðin er ykkar og hinir klassísku slagarar, Höfrungahlaup og Víxlverkun launa,“ ritar Ragnar Þór.
„Það er mikil ókyrrð fram undan“
Ragnar spyr hvers vegna umræddur kór láti ekki í sér heyra þegar „efsta lag samfélagsins er með græjurnar í botni,“ nú þegar árið í ár stefni í að verða metár með tilliti til aðrgreiðslna, kaupaukakerfi og bónusgreiðslur séu komin aftur og að laun forstjóra hafi hækkað um margföld lágmarkslaun.
„Verðbólga er í hæstu hæðum og almenni vinnumarkaðurinn á bara að sýna ábyrgð og hófsemi? Kaupmáttur launa er á hraðri niðurleið og er sótt úr öllum áttum. Verð á nauðsynjum rýkur upp og Seðlabankinn bætir gráu ofan á svart með því að keyra upp vexti sem er jafn gagnslaus aðgerð gegn utanaðkomandi verðbólgu og að hengja út þvottinn í rigningu,“ ritar Ragnar og klykkir út með skilaboðum til kórsins: „Fólk er ekki fífl. Spennið sætisólarnar, kæra elíta, það er mikil ókyrrð fram undan.“
Meirihluti kjarasamninga rennur út á næstu níu mánuðum
Fram kom í sjónvarpsfrétt RÚV á dögunum að yfir 300 kjarasamningar renni út á næstu níu mánuðum. Samkvæmt yfirliti ríkissáttasemjara er 361 kjarasamningur í gildi hér á landi en næsta hálfa árið munu 157 þeirra renna út. Flestir þessara samninga renna út í október og nóvember, þeirra á meðal Lífskjarasamningurinn.
Líkt og Ragnar bendir á hefur kaupmáttur launa farið lækkandi á síðustu mánuðum. Í greiningu Landsbankans frá því í byrjun mánaðar kom fram að launavísitalan hafi hækkað um 0,4 prósent á milli apríl og maí. Frá maí 2021 til maí 2022 hækkaði launavísitalan un 8,6 prósent á meðan ársverðbólga mældist 7,6 prósent. Kaupmáttur jókst því á tímabilinu um 0,9 prósent. Engu að síður var kaupmáttur launa 1,5 prósentum lægri í maí síðastliðnum heldur en í janúar. „Það er því næsta víst að mjög löngu tímabili hækkandi kaupmáttar sé nú lokið,“ sagði í greiningu Landsbankans.
Eflingar-fólk kvíði ekki kjarabaráttunni
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lagði einnig orð í belg um komandi kjarasamningaviðræður í dag. Í færslu á Facebook síðu sinni segir Sólveig að hún hafi ekki áhyggjur af komandi kjarabaráttu. „Ég myndi kannski hafa áhyggjur ef að verka og láglaunafólk væri enn fast í því ástandi sem ríkti fyrir ekki svo löngu, þegar búið var að ákveða að „stöðugleiki“ næðist fyrst og fremst með því að „þjóðarsátt“ ríkti um að vinnuaflið fengi úthlutað nákvæmlega þeim brauðmolum sem að reiknimeistarar valdsins náðu niðurstöðu um að væru nægilega margir,“ ritar hún.
Að mati Sólveigar er sá tími liðinn að Eflingar-fólk kvíði kjarasamningum. Fyrir því séu þeir pólitískt tæki til að ná efnahagslegum árangri. „Ég kvíði ekki komandi kjarabaráttu. Hún verður raunveruleg stéttabarátta. Og félagsfólks Eflingar mun mæta til leiks með allra mikilvægustu vitneskju vinnuaflsins í farteskinu: Vinna okkar skapar verðmæti samfélagsins og gerir sköpun þeirra möguleg með því að halda uppi umönnunarkerfunum,“ ritar hún.
Fólk sem veit þetta, segir Sólveig, skilji að það sé ómissandi og því þurfi það ekki að kvíða kjarabaráttunni. „Það mætir stjórum þessa lands hnarreist og segir: Við sættum okkur ekki við að vellystingar ykkar séu á kostnað okkar. Við krefjumst réttlætis og við krefjumst þess að okkar hagsmunir séu settir í fyrsta sæti,“ ritar hún.
Ég hef ekki áhyggjur af komandi kjarabaráttu. Ég myndi kannski hafa áhyggjur ef að verka og láglaunafólk væri enn fast í...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Thursday, July 14, 2022