Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fór í 23 utanlandsferðir í embættiserindum á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins. Ferðirnar kostuðu ríkið tæpar 20 milljónir króna.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytis hennar við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, en Katrín spurði alla ráðherra ríkisstjórnarinnar um utanlandsferðir þeirra. Forsætisráðuneytið var fyrst til að svara fyrirspurninni, eins og lesa má um hér.
Ragnheiður Elín var erlendis í opinberum erindagjörðum í 84 daga, eða tæpa þrjá mánuði, fyrstu tvö ár kjörtímabilsins. Svarið tekur aðeins til loka maí á þessu ári, en Ragnheiður Elín hefur farið í að minnsta kosti eina ferð í júní, en hún var viðstödd evrópsku nýsköpunarverðlaunin í París í vikunni.
Dýrasta ferðin var vikulöng ferð til Melbourne í Ástralíu, þar sem ráðherrann var á ráðstefnu um orkumál, en ferðin kostaði tæplega þrjár milljónir. Ódýrasta ferðin var vegna fyrsta flugs WOW til Washington, tæplega þrettán þúsund krónur. Líkt og með ódýrustu ferð Sigmundar Davíðs var um að ræða fyrsta flug flugfélags og því hefur ferðakostnaður líklega ekki fallið á ríkið.