Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist vera í góðu samtali við Breta um það sem tímabært sé að ræða í tengslum við mögulega lagningu sæstrengs milli ríkjanna tveggja. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag. Hún vísar því á bug að taka þurfi ákvörðun um málið á næstu misserum svo að tækifærið glatist ekki.
„Ég fullyrði það enda hef ég spurt orkumálaráðherra Breta að því sjálf,“ segir hún. Fram kom á fundi Kjarnans og Íslenskra verðbréfa um sæstrenginn nýverið að bresk stjórnvöld vilja taka upp viðræður við stjórnvöld á Íslandi um verkefnið. Það var Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra og núverandi ráðgjafi hjá Atlantic Superconnection Corporation, sem sagði það. Hann sagði að næstu skref væru í höndum íslenskra stjórnvalda, þau yrðu að taka sínar ákvarðarnir. Það yrði þó að vera skýrt á næstu misserum hvort stjórnvöld hefðu áhuga eða ekki.
Í kjölfar fundarins sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar þingsins, að hann vildi hraða málinu og hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að taka upp viðræður við Breta strax. Þingkonan Björt Ólafsdóttir spurði Ragnheiði Elínu um málið í þinginu í vikunni og þá kom fram í máli Ragnheiðar Elínar að hún hafi enn aðeins átt einn fund með orkumálaráðherra Bretlands, Matthew Hancock.
Ragnheiður Elín segir það rangt sem haldið hafi verið fram að Bretar sæki fast að hefja viðræður, samskipti hennar við núverandi og fyrrverandi orkumálaráðherra landsins hafi einkennst af því að þeir hafi sýnt því skilning að verkefnið krefist mikillar vinnu. Þeir hafi boðið fram aðstoð sína.
„Við erum að vinna þetta m.a. eftir forskrift atvinnuveganefndar og þetta mál krefst yfirlegu. Einhverjum kann að finnast að málið gangi ekki nógu hratt, en ég er ósammála því. Það sem vakir fyrir okkur er að vanda okkur eins og kostur er og gæta að íslenskum hagsmunum,“ segir Ragnheiður Elín við Fréttablaðið.
Búið er að semja við Straum fjárfestingabanka um að gera ítarlega þjóðhagslega kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum sæstrengs á íslenskt samfélag. Undirbúningsvinnu lýkur í kringum áramótin. Þetta er hluti af þeirri vinnu sem atvinnuveganefnd lagði til við ráðherra fyrir einu og hálfu ári síðan að ráðast í.