Forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, Sepp Blatter, var yfirheyrður af fulltrúum saksóknara í Sviss eftir fund stjórnar FIFA í dag. Í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu kemur fram að búið sé að hefja rannsókn á því hvort hann hafi gerst sekur um lögbrot. Rannsóknin á Blatter er hluti af viðamikilli rannsókn á FIFA og spillingu innan sambandsins.
Gerð var húsleit í höfuðstöðvum FIFA í Zurich í Sviss og gögn voru tekin af skrifstofu Blatter.
Annars vegar er Blatter grunaður um að hafa skrifað undir samning við knattspyrnusambandið í karabíska hafinu, þar sem Jack Warner var þá forseti, en samningurinn er sagður hafa verið FIFA í óhag. Þá sé líka grunur um að við innleiðingu þessa samnings hafi Blatter brotið gegn skyldum sínum og tekið ákvarðanir sem sköðuðu hagsmuni FIFA.
Þetta er talið tengjast sjónvarpsréttindasamningum sem sýndu fram á að Blatter samþykkti að selja réttindi til Warner, sem var einnig áhrifamikill innan FIFA og hefur verið til rannsóknar vegna spillingar, undir markaðsvirði.
Til viðbótar við þetta er Blatter sakaður um að hafa greitt „óheiðarlega“ greiðslu upp á tvær milljónir svissneskra franka til Michel Platini, sem er forseti Evrópska knattspyrnusambandins UEFA, og einn þeirra sem vill taka við af Blatter hjá FIFA. Þessi greiðsla er sögð skráð sem greiðsla fyrir vinnu sem hafi átt sér stað frá 1999 til 2002, en greiðslan átti sér stað árið 2011.