Þau eru oft kölluð eilífðarefni, PFAS-efnin manngerðu, sem vegna stórkostlegra eiginleika sinna hafa verið afar eftirsóknarverð í hverslags vörur allt frá því á sjötta áratug síðustu aldar. En ef eitthvað er of gott til að vera satt, eins og það að efnahópurinn sé snilldar uppfinningin ein, er það líklega einmitt oft of gott til að vera satt.
Og á daginn hefur sannarlega komið að PFAS-efni hafa gert meiri skaða fyrir umhverfið en nokkurn gat órað fyrir. Þessi ónáttúrulegu efni hafa borist um alla náttúruna með vindum og vatni og finnast nú allt frá norðurhjara til hitabeltisskóga og Suðurskautslandsins.
Vísindamenn við Stokkhólmsháskóla hafa komist að því að efnin er að finna í regnvatni um alla jörð – meira að segja á Suðurskautslandinu og á hásléttunni í Tíbet. Og þar sem þau brotna flest ekki niður hafa þau safnast upp á plánetunni okkar í sjö áratugi.
Líkt og með önnur mannanna verk þá var ekki talið að heilsu manna og heilbrigði lífríkis stæði ógn af PFAS-efnunum er framleiðsla og notkun þeirra hófst. En viðmiðunarmörk á heilsuspillandi magni þeirra hafa verið færð sífellt neðar síðustu tuttugu ár enda benda rannsóknir til að þau geti valdið margvíslegu heilsutjóni. Sum eru jafnvel talin krabbameinsvaldandi.
Í iðnvæddustu ríkjum heims, m.a. á Íslandi, er regnvatni yfirleitt ekki safnað til neyslu. Á því gerist ekki þörf. En í fátækari ríkjum er regnvatn oft ein helsta uppspretta drykkjarvatns.
Hvað er PFAS?
Á vef Umhverfisstofnunar stendur að PFAS (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) sé stór efnahópur sem samanstendur af meira en 4700 manngerðum efnum. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa mjög sterkt efnatengi á milli kolefnis og flúoratóma sem gerir það að verkum að þau eru afar óhvarfgjörn og stöðug við notkun og í umhverfinu. Rannsóknir benda til að efnin brotni ekki að fullu niður í náttúrunni. Sum þeirra brotna ekkert niður á meðan önnur brotna mjög hægt niður en mynda þá önnur PFAS-efni. Því eru efnin kölluð þrávirk og geta magnast upp í mönnum, dýrum og umhverfinu með tímanum.
Efnin eru mörg hver vatnsleysanleg og hreyfanleg í jarðvegi. Þegar þau losna út í umhverfið ferðast þau aðallega með loft- og vatnsstraumum og geta því borist langa leið frá uppruna sínum. Þau hafa fundist bæði í lífverum og í umhverfinu um allan heim meðal annars á Norðurlöndunum og norðurskautssvæðinu.
Hvar er líklegt að finna þau?
- Textíll og leður sem eru vatns- eða fitufráhrindandi (t.d. fatnaður, skór, gólfmottur, tjöld, áklæði og töskur)
- Viðloðunarfríar (e. non-stick) pönnur og pottar
- Snyrtivörur
- Matvælaumbúðir
- Hreinsiefni
- Raftæki
- Skíðavax
- Vatnsvörn
- Málning og lökk
- Slökkvitækjafroða
Hvernig komast þau inn í líkamann?
- Með innöndun
- Í gegnum fæðuna
- Með upptöku í gegnum húð
Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?
- Skjaldkirtilssjúkdómar
- Ónæmiseiturhrif (e. immunotoxicity)
- Krabbamein í nýrum og eistum
- Lifrarskemmdir
- Eiturhrif á þroskun (e. developmental toxicity)
- Áhrif á æxlun og frjósemi
- Lækkun á fæðingarþyngd nýbura
- Hækkað kólesteról
- Auknar líkur á sykursýki og offitu
Rannsókn vísindamannanna við Stokkhólmsháskóla hefur kveikt á viðvörunarbjöllum og kallað hefur verið eftir því að notkun PFAS-efna verði takmörkuð verulega eða bönnuð.
„Það má ekki vera þannig að fáir hagnist á því að menga drykkjarvatn fyrir milljónir annarra,“ segir Jane Muncke, þýskur sérfræðingur í umhverfisfræðum. Kostnaður við að hreinsa vatn af þessum efnum sé gríðarlegur. Hann ætti iðnaðurinn sem framleiðir efnin að greiða.