Blóðug mótmæli hafa staðið yfir í Suður-Afríku frá því á föstudag fyrir viku. Slegið hefur í brýnu milli mótmælenda og öryggissveita í mótmælunum sem hafa stigmagnast á undanförnum dögum. Óeirðirnar eru þær mestu í landinu í áratugi og er tala látinna kominn upp í 72 í það minnsta, samkvæmt umfjöllun Al Jazeera og yfir 1700 hafa verið handtekin.
Ástandið er verst i Gauteng og KwaZulu-Natal en samkvæmt lögreglu eru 45 dauðsföll í til rannsóknar í Gauteng héraði en 27 í KwaZulu-Natal. Gauteng er afar þéttbýlt hérað, innarlega í landinu norðaustarlega. Það er minnst allra héraða Suður-Afríku en engu að síður fjölmennast en Jóhannesarborg, fjármálamiðstöð Suður-Afríku og fjölmennasta borg landsins, er í héraðinu. Kwazulu-Natal hérað er næstfjölmennasta hérað landsins og er heimahérað Jacob Zuma. Það á landamæri að Lesótó í vestri en liggur að Indlandshafi í austri.
Dauðsföllin í héröðunum tveimur eru flest sögð mega rekja til troðnings sem orðið hefur í áhlaupum sem gerð hafa verið á verslanir, en þúsundir eru sagðir hafa gripið til þess að stela matvælum, raftækjum, áfengi og fatnaði úr verslunum. Þá hefur fólk einnig látið lífið af völdum skotsára. Fyrr í vikunni voru hermenn suður-afríska hersins kallaðir út til þess að aðstoða lögreglu við að kveða niður mótmælin.
Þrátt fyrir að þúsundir hermanna hafi tekið þátt í aðgerðum lögreglu hefur illa gengið að hindra áhlaup á verslanir, vöruhús og verksmiðjur. Ráðamenn í landinu hafa þurft að biðla til almennings um að taka lögin ekki í sína hendur en íbúar í héruðunum tveimur hafa gripið til þeirra ráða til þess að reyna að verja heimili sín og fyrirtæki. Í umfjöllun The Guardian er haft eftir Bheke Cele, ráðherra lögreglumála í Suður Afríku, að veitt aðstoð almennings sé vel þegin af lögreglunni. Öðru máli gegnir um það þegar fólk tekur lögin í sínar eigin hendur og fer jafnvel að skjóta á mótmælendur og þjófa.
Mikil fátækt og hvergi meiri ójöfnuður
Stuðningsmenn Jacob Zuma, fyrrum forseta landsins efndu upphaflega til mótmælanna í kjölfar þess að hann gaf sig fram til lögreglu en Zuma var nýlega dæmdur til fangelsisvistar vegna spillingar. Mótmælin hafa síðan undið upp á sig og segja stjórnmálaskýrendur að ástandið í landinu skipti þar máli. „Þjóðfélagshópar sem hafa átt erfitt uppdráttar í ójafnasta samfélagi í heimi eru reiðir kerfinu og láta nú í sér heyra,“ er haft eftir Mcebisi Ndletyana, prófessor í stjórnmálafræði og alþjóðsamskiptum, í umfjöllun Al Jazeeraa. „Þessi reiði hefur kraumað undir yfirborðinu í áratugi og það sem gæti verið að gerast er það að glæpamenn séu að nýta þessa uppreisn hinna fátæku sér í hag,“ sagði Ndletyana.
Fólk braut sér leið inn í verslanir til þess að stela vegna þess að við viljum að fyrrum forseti Jacob Zuma verði sleppt,“ sagði Msizi Khosa, einn mótmælanda, í samtali við Al Jazeera. „En jafnvel þó að forsetanum verði sleppt þá mun hnuplið halda áfram vegna þess að við erum líka svöng og okkur skortir ýmislegt til þess að þrauka.“
Efnahagur Suður-Afríku hefur að náð einhverjum bata eftir erfiða baráttu landsmanna við kórónuveirufaraldurinn. Seðlabanki landsins spáir því að hagvöxtur árið 2021 muni nema 3,1 prósentum. Atvinnuleysi í landinu hefur aftur á móti hækkað upp í 32 prósent, um helmingur þjóðarinnar býr við fátækt og ójöfnuður er mikill. Samkvæmt tölum Alþjóðabankans er mestur ójöfnuður meðal þjóða heims í landinu.
Skortur á nauðsynjum yfirvofandi
Mótmælin og óeirðirnar sem þeim fylgja hafa haft áhrif á vöruflutninga. Jafnan er mest umferð um flutningaleiðina á milli Jóhannesarborgar og hafnarborgarinnar Duban sem er í KwaZulu-Natal héraði. Um hana aka allt að sex þúsund flutningabílar á degi hverjum en þar hafa flutningar stöðvast.
Skortur á matvælum, eldsneyti og lyfjum er því yfirvofandi innan örfárra daga. Að mati sérfræðinga munu skertir vöruflutningar ekki bara hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa Suður-Afríku heldur verður áhrifanna að öllum líkindum vart í mun fleiri löndum í sunnanverðri Afríku og jafnvel víðar í álfunni.