Framreikningar Umhverfisstofnunar á þróun í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2040 gefa til kynna að losun á beinni ábyrgð Íslands muni dragast saman um 28 prósent fram til ársins 2030 miðað við 2005.
Það væri ansi fjarri markmiði ríkisstjórnarinnar, sem setti sér í stjórnarsáttmála sjálfstætt markmið um að losun á ábyrgð Íslands dragist saman um 55 prósent fram til ársins 2030 miðað við 2005.
Hins vegar væri þetta nærri því að ná þeim 29 prósent samdrætti sem verið hefur hluti Íslands í sameiginlegu 40 prósenta samdráttarmarkmiði Íslands, Noregs og Evrópusambandsins vegna Parísarsáttmálans.
Búið er að herða það markmið upp í sameiginleg 55 prósent fyrir allnokkru – og enn verið að semja um hver hlutur Íslands innan sameiginlega markmiðsins verður, en það verður eitthvað lægra en 55 prósent.
Framreiknaður samdráttur gæti aukist með skýrari mynd af aðgerðum
Upplýsingar um framreikningana koma fram í tilkynningu sem Umhverfisstofnun birti á vef sínum í dag, en framreikningar má segja að séu rökstudd spá um þróun komandi ára, að gefnum ákveðnum forsendum.
Framreikningarnir byggja meðal annars á spám um þróun mannfjölda, eldsneytisnotkun og verga landframleiðslu og svo einnig á aðgerðum úr aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum.
Niðurstöður Umhverfisstofnunar taka þó aðeins til þeirra aðgerða sem unnt var að meta, en stofnunin segir „líklegt“ að þegar fleiri aðgerðir taki á sig skýrari mynd muni þær hafa þau áhrif að framreiknaður samdráttur aukist.
Einnig segir í tilkynningu stofnunarinnar að áframhaldandi þróun aðferðafræði við útreikningana muni leiða til minni óvissu í niðurstöðum.
Þurfum að herða okkur á vegferðinni, segir ráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra telur þessar niðurstöður „segja okkur að við þurfum að herða okkur í loftslagmálum ef við ætlum að standa við loftslagsmarkmiðin“ samkvæmt því sem haft er eftir honum í fréttatilkynningu frá ráðuneyti hans, en þar segir hann einnig að Ísland sé „á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við“ og að „við þurfum að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri“.
„Það er alveg ljóst að nú er komið að næsta áfanga í vegferðinni og þar þarf íslenskt atvinnulíf og sveitarfélög að stíga inn í aðgerðaráætlunina af fullum þunga, setja sér markmið og útbúa áætlanir til að markmið okkar náist,“ er einnig haft eftir ráðherra.
Talsverður samdráttur á milli 2019 og 2020
Nýlega er búið að taka saman losunarbókhald Íslands fyrir árið 2020. Endanlegar niðurstöður úr því eru þær að losun á beinni ábyrgð Íslands minnkaði um rúm 5 prósent á milli ára og samdrátturinn miðað við árið 2005 nam 13 prósentum.
Kórónuveirufaraldurinn er stærsta skýringin á samdrættinum, en mestu munaði um 13,1 prósent samdrátt frá vegasamgöngum frá fyrra ári. Vegasamgöngur eru sem fyrr stærsti einstaki þátturinn í þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, eða 30 prósent.
Umhverfisstofnun og fleiri stofnanir standa fyrir ráðstefnunni Loftslagsdeginum, sem fram fer í Hörpu á morgun, 3. maí, þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir tölur Umhverfisstofnunar um áætlaða losun Íslands.