Rekstrartap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, á síðasta ári var 113 milljónir króna. Það er lægra rekstrartap en árið áður, þegar útgáfufélagið tapaði 210 milljónum króna. Í fyrra fékk Árvakur þó 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði auk þess sem félagið frestaði greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi í fyrra upp á alls 122 milljónir króna. Um er að ræða vaxtalaust lán úr ríkissjóði sem þarf að endurgreiðast fyrir mitt ár 2026. Greiðslur eiga að hefjast síðar á þessu ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi Árvakurs sem skilað var inn til Skattsins 25. maí síðastliðinn en var ekki birtur fyrr en í lok síðustu viku.
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun maí var greint frá því að hefði skilað 110 milljóna króna hagnaði í fyrra. Í þeirri frétt var ekki minnst á vaxtalausa lántöku hjá ríkissjóði.
Í ársreikningi Árvakur sést hvernig sá hagnaður myndast, en hann er ekki tilkominn vegna reglulegs reksturs, af honum er áfram sem áður tap.
Skuldir við dótturfélag sem prentar hlaðast upp
Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengist ekki grunnrekstri Árvakurs, útskýrir þann mun sem er á endanlegri afkomu og rekstrarafkomu, en hún er jákvæð um 243 milljónir króna. Þar skiptir mestu hlutdeild í Landsprenti, sem rekur prentsmiðju sem prentar þorra þeirra prentmiðla sem gefnir eru út á Íslandi, en hún var 196 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur drógust þó saman.
Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina bæði Landsprents og Póstdreifingar. Í fyrra keypti Árvakur þjónustu af dótturfélögum sínum fyrir um 1,2 milljarða króna.
Útgáfufélagið skuldar hins vegar Landsprenti líka háar upphæðir, alls 730 milljónir króna um síðustu áramót. Sú skuld hækkaði um 230 milljónir króna í fyrra. Auk þess skuldar Árvakur öðrum tengdum félögum um 50 milljónir króna.
Stundin greindi frá því í lok september í fyrra að 40 prósent verðhækkun eða meiri væri yfirvofandi á dagblaðapappír og vitnaði þar í tilkynningu sem Landsprent hafði sent viðskiptavinum sínum en Landsprent prentar meðal annars Stundina.
Hlutafjáraukning í byrjun árs
Kjarninn greindi frá því í mars að hlutafé í Morgunblaðssamstæðunni hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
Þetta var í þriðja sinn frá árinu 2019 sem nýtt hlutafé er sett inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar til að mæta taprekstri hennar. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar. Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna á þremur árum.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 18 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist 8,5 prósent.
Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur. Mbl.is hefur þó enn vinninginn þegar kemur að fjölda flettinga en miðlarnir tveir hafa undanfarið verið með nánast sama fjölda innlita á viku.