Bjarni Jónsson, þingamaður Vinstri grænna, segir ljóst að mörgum spurningum sé ósvarað og að fara verði ofan í saumana á ferlinu við sölu á hlut Íslandsbanka, sem Bankasýsla ríkisins sá um. Telur hann að trúverðugleiki stofnunarinnar hafi beðið hnekki og að það myndi auðvelda henni að endurheimta traust ef forstjóri og stjórn hennar myndu víkja. Þetta skrifar Bjarni í pistli sem birtist á Vísi í morgun.
Þar segir Bjarni jafnframt að ekki eigi að koma til álita að selja frekari hluti í Íslandsbanka fyrr en öll kurl séu komin til grafar um framkvæmdina og að hagsmunir almennings verði tryggðir ásamt þeirri umgjörð viðskiptasiðferðis sem beri að hafa við sölu ríkiseigna.
Þó varar Bjarnir við því að grafið sé undan stöðu og hlutverki Ríkisendurskoðunar sem sjálfstæðrar og óháðrar eftirlitsstofnunar Alþingis, en margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa kallað eftir því að sérstök rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð vegna málsins. Bjarni segir hins vegar að fyrsta og rökrétta skrefið sé úttekt Ríkisendurskoðunar, sem hingað til hafi hlotið traust þingmanna og þingnefnda til úttekta á smærri og stærri málum sem hafi komið til álita.
Rannsókn Ríkisendurskoðunar útiloki ekki að hægt verði að undirbúa frekari úttektir á ferlinu á meðan á vinnu stofnunarinnar standi, ef til þess séu ríkar ástæður. „Ef að undangenginni úttekt Ríkisendurskoðunar kemur í ljós að þörf sé á að fara frekar ofan í saumanna á einstökum þáttum, þá vænti ég þess að það verði gert,“ skrifar Bjarni.