Tekjur Reykjavíkurborgar vegna innheimtra fasteignaskatta námu 22 milljörðum króna í fyrra. Þær hækkuðu alls um 813 milljónir króna á milli ára sem var 483 milljónum krónum minna en fjárhagsáætlun borgarinnar hafði gert ráð fyrir. Alls er hækkunin á tekjustoðinni 3,8 prósent.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og áhættustýringasviðs Reykjavíkurborgar sem fylgdi með ársreikningi hennar.
Það þarf að leita langt aftur til að finna jafn litla hækkun á innheimtum fasteignasköttum og á síðasta ár, en tekjustofninn hækkaði um 2,9 milljarða króna milli 2018 og 2019 og um þrjá milljarða króna milli 2017 og 2018.
Það var 2,9 milljörðum krónum meira en borgin innheimti í slíka skatta árið áður og 5,9 milljörðum krónum meira en árið 2017, þegar tekjur hennar vegna þeirra námu námu 15,1 milljarði króna.
Miklar hækkanir á fasteignaverði skýra auknar tekjur
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignaskatt.
Slík gjöld eru aðallega tvenns konar. Annars vegar er fasteignaskattur og hins vegar lóðarleiga. Auk þess þurfa íbúar að greiða sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva sem hluta af fasteignagjöldum sínum.
Tekjur Reykjavíkurborgar vegna fasteignaskatta næstum tvöfölduðust frá árinu 2013 og fram til loka árs 2019, en á tímabilinu fóru þær úr 11,6 milljörðum króna í 21,1 milljarð króna.
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var lækkaður um tíu prósent á árinu 2017 úr 0,20 í 0,18 prósent. Þannig er hann enn. Auk þess voru afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum auknir.
Á meðal þeirra aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna efnahagslegra áhrifa útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, og borgarráð samþykkti í lok mars 2020, var frestur á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta á árinu 2020. Það úrræði hefur áhrif á tekjur vegna fasteignaskatta í fyrra.
Þótt borgarráð hafi á sama tíma ákveðið að flýta áformum sínum um að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65 í 1,60 prósent þá tók sú breyting ekki gildi fyrr en um síðustu áramót.
Tæplega sex milljarða tap á A-hlutanum
Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fyrir borgarráð á fimmtudag. Þar kom fram að sá hluti rekstrar hennar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 5,8 milljarða króna tapi í fyrra.
Áætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 1,5 milljarða króna. Því var afkoma A-hlutans 7,3 milljörðum króna undir áætlun.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa sagði að rekstrarniðurstaða A-hlutans skýrist einkum af áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Sala byggingarréttar var ofáætluð um 3,2 milljarða króna, skatttekjur voru 2,7 milljörðum króna undir áætlun, launakostnaður var 1,7 milljarði króna yfir áætlun og annar ósundurliðaður rekstrarkostnaður var tæplega 1,2 milljörðum króna yfir áætlun.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Rekstur þess hluta var líka töluvert undir áætlun í fyrra, en hann var þó jákvæður um alls þrjá milljarða króna. Sömu skýringar eru gefnar á þeirri stöðu, áhrif faraldursins höfðu neikvæð áhrif á til dæmis tekjur Faxaflóahafna, Strætó bs og Sorpu. Þá hafði veiking krónunnar umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu.
Samanlagt nam því tap A- og B-hluta Reykjavíkurborgar alls 2,8 milljörðum króna í fyrra. Áætlun hafði gert ráð fyrir hagnaði upp á 11,9 milljarða króna. Því nemur viðsnúningurinn frá áætlun að veruleika alls 14,7 milljörðum króna.
Eignir samstæðunnar voru metnar á 730,4 milljarða króna í lok síðast árs og hækkuðu um 41,5 milljarða króna í fyrra. Skuldir hækkuðu að sama skapi um 40,9 milljarða króna og stóðu í 385,8 milljörðum króna um áramót. Eiginfjárhlutfall Reykjavíkurborgar er nú 47,2 prósent en var 49,9 prósent í lok árs 2019.