Engin rök standa til þess að sveitarfélögum sé skylt að láta af hendi lóðir án endurgjalds til trú- eða lífsskoðunarfélaga að því er segir í umsögn frá Reykjavíkurborg við frumvarp til laga um brottfall laga um Kristnisjóð. „Því er að mati Reykjavíkurborgar rétt að fella brott ákvæði 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl. til að gæta jafnræðis milli trú- og lífsskoðunarfélaga,“ segir í umsögn borgarinnar.
Frumvarpið sem um ræðir miðar að því að fella úr gildi lög um Kristnisjóð en fimmta grein þeirra laga stendur ein eftir. Í henni er kveðið á um að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.
Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum úthlutað fjórum lóðum til trúfélaga og ákveðið að ekki þurfi að greiða gatnagerðargjald af byggingum umræddra trúfélaga. Þessar ákvarðanir voru teknar á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en í henni er meðal annars kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til trúarbragða.
Í umsögninni er þessi rúma túlkun á lögum um Kristnisjóð sögð umdeild og að mikið hafi verið rætt hvort að borginni hafi verið skylt að undanskilja lóðir allra skráðra trúfélaga með þeim hætti sem gert var. Þar er einnig sagt eðlilegt að sveitarfélög hafi sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin landsvæði. Borgin tekur enn fremur undir þau sjónarmið að engin rök standi til þess að sveitarfélögum sé skylt að láta af hendi lóðir án endurgjalds til trú- eða lífsskoðunarfélaga.
Einfaldasta lausnin sé að fella lögin brott
Lög um Kristnisjóð byggjast á tillögum prestakallanefndar sem kirkjumálaráðherra skipaði árið 1965. Í greinargerð frumvarpsins segir að þá hafi trúarlíf þjóðarinnar verið mun einsleitara en nú og að þá hafi ríkt meiri sátt um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga.
Færð eru rök fyrir því að hægt sé að túlka lög um kirkjusjóð á fleiri en einn veg í greinargerð, líkt og dæmi eru um. Samkvæmt 62. grein stjórnarskrár nýtur Hin evangelíska lúterska kirkja stöðu þjóðkirkju á Íslandi og skal ríkið að því leyti styðja hana og vernda. Í stjórnarskránni er einnig kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
Lögin nefna ekki sérstaklega kirkjur þjóðkirkjunnar, heldur kirkjur almennt. „Því verður ekki í fljótu bragði séð að 5. gr. laganna grundvallist á 62. gr. stjórnarskrárinnar sem veitir þjóðkirkjunni sérstaka vernd og stuðning. Þetta atriði er þó umdeilt og er það eitt vandamálanna við túlkun ákvæðisins,“ segir í greinargerð.
Að mati flutningsmanna frumvarpsins eru trú- og lífsskoðunarfélög í eðli sínu umdeild að því er fram kemur í lokaorðum greinargerðarinnar. Stutt geti verið í hatursfulla orðræðu þegar mál þeirra eru til umræðu. Þar er það einnig sagt ótækt að íslensk lög séu þess valdandi að misjafn skilningur á markmiði og túlkun laga geti valdið núningi milli trúarhópa. Einfaldasta og skynsamlegasta lausnin á vandanum sem fylgir þessum lögum sé því að fella þau á brott að mati flutningsmanna frumvarpsins. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
Biskupsstofa mótfallin frumvarpinu
„Óskað er eftir að Alþingi virði það, sem um hefur verið samið og unnið hefur verið eftir af hálfu bæði meiri hluta löggjafarvalds og framkvæmdavalds annars vegar og kirkjunnar hins vegar, frá gerð viðbótarsamningsins. Því fái frumvarp þetta ekki framgang,“ segir í niðurlagi umsagnar Biskupsstofu um frumvarpið.
Viðbótarsamningurinn sem um ræðir er samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem undirritaður var í september árið 2019. Samningurinn felur í sér endurskoðun á samkomulagi frá árinu 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Markmið samningsins var að einfalda framkvæmd þessa samkomulags og auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum meðal annars með því að einfalda löggjöf um þjóðkirkjuna. Í viljayfirlýsingu samningsaðila sem fylgir samningum var kveðið á um að annar kafli laga um Kristnisjóð skyldi felldur úr gildi. Það var gert í júlí 2020 og viljayfirlýsingunni þar með fylgt eftir að mati Biskupsstofu.